spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaÞett‘er aaallt í lagi...og þeir halda til hafs á ný!

Þett‘er aaallt í lagi…og þeir halda til hafs á ný!

Valsarar áttu möguleika á því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í kvöld. Þeir náðu forystu íeinvíginu 2-1 eftir vægast sagt sannfærandi sigur í þriðja leiknum að Hlíðarenda, 80-62. Leikur kvöldsins fór hins vegar fram í Smáranum og Grindvíkingar bara hljóta að spila betur en í síðasta leik! Dugir það til sigurs, fáum við oddaleik á miðvikudagskvöld? 

Kúlan:

,,Mig langar til að greina alþjóð frá því að æsilegur oddaleikur muni fara fram að Hlíðarenda! EN…því miður. Valsvélin, Rauða skrímslið, mun enn og aftur draga vonina og þróttinn úr gulum smátt og smátt í gegnum leikinn. Engin læti, engin flugeldasýning, ekkert rúst. En Valssigur, 75-84.“     

Byrjunarlið

Grindavík: Basile, Valur, Kane, Óli, Mortensen 

Valur: Tamulis, Kiddi, Aron, Badmus, Kristó

Gangur leiksins

Badmus lagði línurnar í byrjun, setti fyrstu stig leiksins og var grimmur í framhaldinu fyrir sína menn. Gestirnir voru skónúmeri framar í leikhlutanum en heimamenn höfðu greinilega unnið vel í því að púsla sér saman eftir síðasta leik og nörtuðu ávallt í hæla Valsara. Basile kom Grindvíkingum meira að segja yfir 21-20 seint í leikhlutanum með víti eftir svaðalega körfu góða en þó leiddu gestirnir 23-25 eftir einn.

Annar leikhluti var alveg þrælgóð skemmtun! Liðin skiptust ítrekað á forystunni, Basile fór fyrir sínum mönnum en Badmus sem fyrr Valsmegin. Bæði lið börðust af krafti og mikil spenna enda bikarinn í húsinu! Þegar tæpar 3 mínútur voru til hálfleiks komu Grindvíkingar sér í 41-37 eftir sniðskot frá Breka og Finnur var fljótur að biðja um leikhlé. Sennilega er það grundvallaratriði í hans huga að hleypa gulum ekki á neinn sprett! Lítið var skorað fram að hálfleik en heimamenn höfðu heilt eitt stig í forskot, 44-43 í pásunni. Badmus var kominn með 17 stig og Basile 16 í hálfleik.

Grindvíkingar byrjuðu ljómandi vel í seinni hálfleik. Basile opnaði hann með þristi og Kane setti loooksins niður þrist og kom heimamönnum í 52-45 þegar 3 og hálf voru liðnar af þriðja leikhluta. Vörn Grindjána var með ágætum á þessum kafla leiksins en samkvæmt óskeikulli greiningu undirritaðs gerðu þeir sér hins vegar þann grikk að hætta að láta boltann rúlla í sókninni, líkt og þeir ætluðu að hanga á þessari 7 stiga forystu út leikinn! Valsmenn refsuðu líka fyrir það og Kári Jóns jafnaði með þristi 52-52 þegar 3:30 lifðu af leikhlutanum og Jóhann tók leikhlé. Það var umtalsvert óðagot á báðum liðum út leikhlutann, bæði lið gerðu sig sek um alls kyns mistök enda spennan yfirgengileg í húsinu! Nafni hefur afskaplega gaman af því að jafna leiki með þristum og gerði það aftur í lok þessa leikhluta, allt hnífjafnt eftir þrjá, 58-58!

Gestirnir settu fyrstu 5 stigin í lokafjórðungnum og allir nema Valsmenn höfðu vafalaust áhyggjur af því að nú væri komið að lok, lok og læs og allt í stáli hjá vörn deildarmeistaranna. En meistari Óli Óla tók slíkt ekki í mál og kom sínum mönnum yfir 64-63 með þristi þegar tæpar 7 voru til leiksloka. Það væri ekki algalið að skrifa nákvæma lýsingu á stórkostlegum síðustu 7 mínútum leiksins en grípum næst niður þar sem Valsmenn með hinn stórkostlega leikmann Frank Aron Booker í broddi fylkingar höfðu komið sér í 64-68 stöðu. Hver annar en Óli svaraði því með þristi og Kane í framhaldinu, heimamenn voru þá komnir 73-68 yfir og aðeins 4 mínútur eftir. Aron Booker hélt uppteknum hætti fyrir gestina, setti næstu fimm stig gestanna og þegar góðar 2 mínútur voru eftir stóðu leikar 75-73 og allir á fótum í húsinu! Óðagotið tók nú svolítið yfir aftur, Kane haltraði um völlinn en stal samt boltum og fiskaði ruðninga eins og enginn væri morgundagurinn! Það breytti því ekki að þegar 34 sekúndur voru eftir fóru gestirnir í sókn, einu stigi undir í stöðunni 77-76 og Kári Jóns kom Völsurum yfir með vörumerkjagegnumbroti! Grindvíkingar tóku eðlilega leikhlé til að skipuleggja mikilvægustu sókn tímabilsins en nákvæmlega ein skotklukka var eftir af leiknum. Það hefur tæplega verið hluti af planinu að Kane svo gott sem byrjaði á því að tapa boltanum í sókninni en Óli á gersamlega allt til að lækna kvíða, náði einhvern veginn að sækja boltann aftur fyrir sína menn og sóknin endaði með tandurhreinum þristi frá Basile úr horninu! Staðan 80-78, Finnur tók leikhlé og hafði 5 sekúndur til að jafna eða verða Íslandsmeistari. Ótrúlegt en satt áttu heimamenn villu til að gefa sem þeir nýttu vel, vörnin hélt gestunum frá körfunni. Frábær Grindavíkursigur í stórkostlegum leik – oddaleikur á miðvikudagskvöldið!

Menn leiksins

Basile var algerlega frábær í kvöld! Hann setti 32 stig, tók 3 fráköst, gaf 7 stoðsendngar og setti sigurkörfuna í lokin! Þvílíkur kappi. Kane gat ekki annað en spilað betur en í síðasta leik og fyrirliðinn Óli Óla spilaði fantavel. Reyndar voru fáir aðrir á skotskónum fyrir Grindjána í kvöld, stigin koma kannski í oddaleiknum?

Badmus var atkvæðamestur hjá Völsurum með 19 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar. Aron Booker tók má segja við sóknarlega í síðari hálfleik, endaði með 16 stig og fimm fráköst en það dugði ekki til sigurs. Kári kom svo inn af bekknum og skilaði góðum mínútum.

Kjarninn

Það bara hlýtur að hafa verið svolítið átak fyrir Grindvíkinga að safna kröftum en þó aðallega trú fyrir leik kvöldsins! Ráðaleysið var mikið í síðasta leik og tapið illt og stórt. En það eru keppnismenn sem nenna að standa í því að skemmta okkur með þessum fagra leik, körfuboltanum! Það gerði Grindavíkurliðið – og auðvitað Valsliðið líka – svo sannarlega í kvöld. Draumurinn er orðinn að veruleika – þett‘er allt í lagi…og halda þeir á oddaleikjamiðin á miðvikudagskvöld!

Valsarar mættu sannarlega til að klára dæmið í Smáranum í kvöld. Það vantaði herslumuninn að þessu sinni – öllum nema Völsurum til gleði og ánægju. En það má líta svo á að aðalveislan fyrir stuðningsmenn Vals er þá bara ekki hafin ennþá, alltaf gott að eiga veislu inni! Hún fer fram að Hlíðarenda á miðvikudagskvöld.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -