Haukar leika til úrslita um laust sæti í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð eftir 69-58 sigur á Þór Þorlákshöfn í oddaviðureign liðanna í undanúrslitum 1. deildar karla. Þórsarar gerðu heiðarlega tilraun til þess að vinna niður forystu Hauka í fjórða leikhluta en heimamenn höfðu einfaldlega slitið sig of langt frá Þór til þess að þeir næðu að jafna metin að nýju og ógna sigri Hauka. Hart var barist að Ásvöllum í kvöld og vörnin í fyrirrúmi og því ekki áferðafallegasti leikur liðanna þetta tímabilið enda vart við því að búast þegar menn eru ,,all in.“
Óskar Ingi Magnússon kom Haukum í 8-2 með þriggja stiga körfu en gestirnir úr Þorlákshöfn voru venju samkvæmt í svæðisvörn. Heimamenn komust í 16-9 en þá kom Þorsteinn Ragnarsson af bekknum hjá Þór og minnkaði muninn í 16-15 með tveimur þriggja stiga körfum í röð. Haukar leiddu þó að loknum fyrsta leikhluta 19-15.
Richard Field var tekinn mjög föstum tökum af Haukavörninni og bæði hann og Grétar Erlendsson stóðu í miklum slag í teignum gegn ákveðinni vörn heimamanna. Staðan í hálfleik var 32-25 Haukum í vil sem leiddu í lágskorandi fyrri hálfleik einkum fyrir sakir góðrar varnar. Sóknarleikur beggja liða var gloppóttur og nýtingin léleg en baráttan var fyrir hendi á báða bóga.
Haukar hófu síðari hálfleik 5-0 eftir þriggja stiga körfu frá Sævari Haraldssyni og staðan 37-25 fyrir Hauka. Þriðji leikhluti átti eftir að leggja grunninn að sigri heimamanna í kvöld en Haukar unnu leikhlutann 24-14.
Baldur Ragnarsson barðist vel fyrir gestina í upphafi síðari hálfleiks en Þór tók leikhlé eftir að Haukar stálu boltanum og splæstu í hraðaupphlaup sem lauk með troðslu hjá Semaj Inge og staðan 44-22 og 5 mínútur liðnar af leikhlutanum. Með troðslunni varð Inge fyrsti maðurinn í leiknum til þess að rjúfa 10 stiga múrinn og það eftir 25 mínútna leik!
Á næstu tveimur mínútum breyttu Haukar svo stöðunni í 50-35 þar sem Þórsarar sofnuðu á verðinum í varnarleiknum og gáfu heimamönnum auðveld skot eða næstum frípassa upp að körfunni. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 56-39 Haukum í vil og heimamenn því búnir að skora meira á 30 mínútum en þeir gerðu á heilum 40 mínútum í fyrsta leik liðanna í þessu einvígi.
Ónotakliður fór um Ásvelli í fjórða leikhluta þar sem Þórsarar áttu skuldlausar fyrstu fjórar mínútur leikhlutans. Gestirnir tóku 10-0 áhlaup og minnkuðu muninn í 56-49 áður en Semaj Inge setti niður eitt vítaskot til að enda áhlaup gestanna.
Magnús Pálsson minnkaði svo muninn í 57-51 með erfiðri körfu í teig Hauka en skömmu síðar má segja að Davíð Páll Hermannsson hafi gert út um leikinn. Haukar voru í sókn og tvær sekúndur eftir af skotklukkunni þegar þeir áttu innkast. Boltinn kom úr innkasti upp í hrammana á Davíð Páli sem skaut úr erfiðu færi og jarðaði þristinn og breytti stöðunni í 60-51 þegar tvær mínútur voru til leiksloka.
Richard Field fór skömmu síðar af velli með sína fimmtu villu og var hann ekki par sáttur við þá niðurstöðu og gestirnir úr Þorlákshöfn náðu ekki að klóra sig inn í leikinn að nýju þrátt fyrir heiðarlega tilraun á upphafsmínútum fjórða leikhluta. Lokatölur því 69-58 Haukum í vil sem mæta þá Skallagrím eða Val í úrslitarimmu um laust sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð.
Semaj Inge gerði 18 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar í leiknum en næstur honum í liði Hauka var Davíð Páll Hermannsson með 14 stig og 7 fráköst. Hjá Þór Þorlákshöfn var Richard Field með 14 stig og 11 fráköst en næstur kom Þorsteinn Ragnarsson með 12 stig.



