spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2027Thelma Dís verður með gegn Portúgal ,,Verð klár á þriðjudaginn"

Thelma Dís verður með gegn Portúgal ,,Verð klár á þriðjudaginn”

Íslenska landsliðið ferðaðist til Portúgal nú um helgina til þess að leika gegn heimakonum komandi þriðjudag 18. nóvember. Leikurinn verður annar leikur liðsins í undankeppni EuroBasket 2027, en þeim fyrsta tapaði liðið heima í Ólafssal gegn Serbíu síðasta miðvikudag.

Leikur þriðjudagsins er á dagskrá kl. 19:00 að íslenskum tíma og verður hann í beinni útsendingu á RÚV.

Hérna er heimasíða keppninnar

Karfan heyrði í Thelmu Dís Ágústsdóttur og spurði hana út í ferðalagið, leik þriðjudagsins og hvort hún yrði með í honum, en hún var frá vegna meiðsla í fyrsta leik keppninnar síðasta miðvikudag.

Varðandi ferðina til Portúgal sagði Thelma ,,Ferðalagið gekk bara vel, alveg langur dagur en held við séum búnar að ná að hrista það af okkur. Við náðum að teygja vel í gærmorgun og tókum svo góða æfingu seinnipartinn þannig að við erum bara spenntar.”

Eins og tekið var fram var Thelma frá vegna meiðsla gegn Serbíu síðasta miðvikudag, varðandi hvort það hafi verið erfitt og hvort hún yrði með í leiknum gegn Portúgal sagði hún ,,Jú það var svolítið erfitt að sitja á bekknum, sérstaklega í nýrri keppni með nýjan þjálfara. En hugsa samt að það hafi alveg verið rétt ákvörðun, mér líður allavega miklu betur og verð klár á þriðjudaginn.” 

Enn frekar sagði Thelma um þessa fyrstu leiki Íslands undir nýjum þjálfara Pekka Salminen ,,Mér fannst við ná að spila alveg nokkuð vel á köflum á móti Serbíu. Það náttúrulega tekur alveg tíma að spila sig saman í glænýju systemi og auðvitað erfitt á móti topp 10 liði í heiminum. Við viljum fyrst og fremst spila hraðan bolta, reyna að hlaupa á andstæðingana og hreyfa boltann vel. Svo erum við líka búnar að tala mikið um að vilja pressa meira og hærra á vellinum og vera bara aggressívar og svolítið óþolandi varnarlega. Við náðum ekki að hlaupa nógu mikið í bakið á Serbíu en ætlum að reyna að nýta það betur á móti Portúgal af því að þær voru að spila í gær og eiga eftir að ferðast aftur frá Serbíu og svona.”

Fréttir
- Auglýsing -