spot_img
HomeFréttirÞekkir vel til íslensks körfuknattleiks

Þekkir vel til íslensks körfuknattleiks

 
Karfan.is setti sig í samband við Hannes Sigurbjörn Jónsson formann KKÍ en nú fyrir stundu tilkynnti sambandið um ráðningu á Peter Öqvist í starf landsliðsþjálfara A-landsliðs karla. Hannes kvaðst ánægður með ráðninguna og sagði nýja landsliðsþjálfarann njóta virðingar í Svíþjóð og að hann hefði talsverða þekkingu á íslenskum körfuknattleik en Öquvist stýrir m.a. Jakobi Erni Sigurðarsyni og Hlyni Bæringssyni hjá Sundsvall í Svíþjóð.
,,Í ljósi þess að við höfum verið í þessari landsliðspásu var farið í gegnum afreksstarf KKÍ frá A-Ö og að mörgu leyti var þetta tíminn til þess að fá nýtt blóð inn í starfið okkar. Sú vinna sem tengist þessu afreksstarfi er ekki búin og m.a. verður frekar farið ofan í þann lið á KKÍ þinginu um næstu helgi,“ sagði Hannes aðspurður um ráðningu erlends þjálfara á landsliðið.
 
,,Við höfðum nokkur nöfn í huga og þetta varð á endanum eftir að við höfðum farið út og heimsótt hann. Peter Öqvist nýtur mikillar virðingar í Svíþjóð og þekkir vel til íslensks körfubolta sem er einnig mikill kostur. Friðrik Ingi Rúnarsson framkvæmdastjóri KKÍ fór út og hitti hann í byrjun mars og áttu þeir saman góðan fund þar sem farið var yfir málin og í kjölfarið af þeim fundi réðum við Öqvist,“ sagði Hannes en Peter Öqvist hefur einnig þjálfað yngri landslið í Svíþjóð og hefur því fylgst grannt með gangi mála í íslenskum körfubolta.
 
Nokkuð var um það hér þegar landsliðin voru starfandi að margir leikmenn gæfu ekki kost á sér í landsliðsverkefnin. Telur Hannes að nú verði breyting þar á?
 
,,Ég hef fulla trúa á því að leikmenn gefi kost á sér í þau verkefni sem framundan eru, stefnan er að taka þátt í Evrópumeistaramótinu á næsta ári og nú er verið að leita leiða svo sú þátttaka geti orðið að veruleika.“
 
Mynd/ Peter Öqvist hefur fylgst grannt með gangi mála í íslenskum körfuknattleik.
 
Fréttir
- Auglýsing -