spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaÞegar tölurnar blekkja - Tölfræðiskýrslan segir ekki alla söguna

Þegar tölurnar blekkja – Tölfræðiskýrslan segir ekki alla söguna

Tölfræðikerfi KKÍ veitir okkur ýmsar viðbótarupplýsingar sem mikilvægt er að skoða þegar lið í deildunum eru borin saman. Þar má nefna stig skoruð í teignum, stig skoruð eftir sóknarfrákast og stig skoruð eftir tapaðan bolta andstæðings. Hið fyrstnefnda er partur af sóknaráherslum liða, þ.e. hvort sótt sé inn í teiginn eða ekki en hin tvö eru það sem hægt er að kalla “baráttutölfræði” (e. hustle stats). Ég hef áður bent á hversu mikilvægt það er að leiðrétta helstu tölfræðiliði fyrir sóknarfjölda eða leikhraða en nú skoðum við hlutföll og samhengi hlutanna.

Stig í teig segja okkur hversu mikið af stigum lið skora í teignum að meðaltali yfir leiktíðina. Sú tala segir okkur hins vegar ekkert um hversu stór hluti af sóknarþunga liðs fer þar í gegn. Það er hægt að gera með því að skoða hlutfall stiga í teig á móti heildarstigafjölda liðs. Þá sést t.d. að Þór Þorlákshöfn var í fjórða sæti í Subwaydeild karla yfir meðaltal stiga í teig með 39,3. Þór er hins vegar í 12. og neðsta sæti deildarinnar í hlutfalli stiga í teig af heild eða 39,9%. Ástæðan er líklegast sú að Þór er næststigahæsta lið deildarinnar með 98,0 stig að meðaltali í leik sem dregur úr vægi stiganna í teignum.

Stig eftir sóknarfráköst þarf líklegast ekki að útskýra frekar, en sú tölfræði segir okkur ekkert um hversu vel liðið nýtir þau viðbótartækifæri sem það fær eftir sóknarfrákast. Ef heildarfjölda sóknarfrákasta er deilt upp í þann stigafjölda fáum við tölu sem hægt er að bera saman við önnur lið – stig liðs eftir sóknarfráköst á móti hverju sóknarfrákasti liðs. Stjarnan t.a.m. leiðir deildina í stigum eftir sóknarfráköst með 14 slík að meðaltali í leik. Stjarnan skorar hins vegar aðeins 0,805 stig á móti hverju sóknarfrákasti sem liðið tekur og er í 10. sæti deildarinnar yfir þá tölfræði. Stjarnan var öflugast allra liða í deildinni að taka sóknarfráköst og tók 37% allra sem í boði voru en nýtti þau ekki vel.

Stig eftir tapaðan bolta frá andstæðing segir okkur hversu mörg stig að meðaltali lið skorar eftir að andstæðingur þess tapar boltanum. Sé þessum stigafjölda deilt með fjölda tapaðra bolta andstæðings sjáum við hversu vel lið eru að nýta þessar gjafir frá andstæðingi sínum. Tindastóll t.d. er í öðru til þriðja sæti deildarinnar í stigum eftir tapaða bolta með 14,3 (deilir sætinu með Njarðvík). Tindastóll er hins vegar í 11. sæti deildarinnar m.t.t. nýtingar á slíkum tækifærum með 0,893 stig á móti hverjum töpuðum bolta andstæðings. Tindastóll þvingar mikið af töpuðum boltum en 16,2% af sóknum anstæðinga liðsins enda með töpuðum bolta (nr. 1 í deildinni), en ná illa að nýta þau tækifæri ef marka má ofangreint.

Á myndinni hér að neðan er tafla sem sýnir þessi gildi fyrir öll lið í deildarkeppni Subwaydeildar karla. Hver dálkur er útskýrður í textanum fyrir neðan töfluna en þeir dálkar sem merktir eru með # eru uppröðun gilda innan deildar, eða það sæti sem talan er í. Mismunartaflan sýnir svo mismun sætaröðunnar milli t.d. PiP og PiP%. Sú tafla á að sýna hvaða lið eru í raun betri í þessum tölfræðilið en gildin sjálf sýna. Græn gildi jákvæð og rauð neikvæð.

Smellið á myndina til að fá stærri og skýrari mynd

Á varnarhlutanum vekur helst athygli tölfræði Vals sem leiðir deildina með fæst stig andstæðings eftir sóknarfrákast eða 8,1. Valur er afburða varnarfrákastalið og tækifærin því fá hjá andstæðingum liðsins til að skora eftir sóknarfrákast. Valur leyfir hins vegar 0,920 stig eftir hvert sóknarfrákast andstæðings og lendir í 9. sæti deildarinnar þar. Þór Þorlákshöfn leyfir aðeins 11,4 stig eftir tapaða bolta frá sér og er í þriðja sæti deildarinnar í þeim tölfræðiþætti. Þór tapar boltanum afar sjaldan sem skýrir að miklu leyti þetta lága gildi. Sé hins vegar skoðaður stigafjöldi andstæðinga á móti hverju töpuðum bolta Þórs er aðra sögu að segja. Þór leyfir 1,044 stig eftir hvern og einn eigin tapaða bolta og eru í 11. sæti deildarinnar þar. Tölfræði KR-inga vekur einnig athygli á bæði sóknar- og varnarhlutanum. KR-ingar eru t.d. í 11. sæti yfir stig andstæðings eftir sóknarfrákast með 12,7 að meðaltali í leik en andstæðingar KR skora hins vegar aðeins 0,857 stig eftir hvert sóknarfrákast sem er það fjórða besta í deildinni. KR er kannski slakt frákastalið en verst greinilega vel þegar andstæðingar liðsins fá slík tækifæri.

Fréttir
- Auglýsing -