spot_img
HomeFréttirÞegar KR sigraði Keflavík í fjórframlengdum naglbít

Þegar KR sigraði Keflavík í fjórframlengdum naglbít

 

Í kvöld mætast KR og Keflavík í fyrsta leik undanúrslita Dominos deildar karla. KR meistarar síðustu þriggja ára, einnig vörðu þeir bikarmeistaratitil sinn, sem og deildarmeistaratitilinn. Keflavík aftur á móti verið vaxandi, enduðu í 6. sæti deildarinnar, en fóru í gegnum sterkt lið Tindastóls á leið sinni til undanúrslitanna.

 

Í tímavélinni í dag ætlum við að taka fyrir einn magnaðasta leik sem spilaður hefur verið á milli þessara liða, en hann er frá árinu 2009. Fyrir þetta tímabil hafði KR farið í gegnum miklar breytingar. Fengið m.a. þá Jakob Örn Sigurðarson og Jón Arnór Stefánsson aftur til liðs við sig úr mennskunni. Keflavík aftur á móti voru Íslandsmeistarar árið áður, en þetta árið, í undanúrslitum ársins 2009 tryggði KR sér farmiða í úrslitin, eftir fjórframlengdan þriðja leik gegn Keflavík. Í framhaldinu lék KR við og sigraði Grindavík í æsispennandi úrslitaeinvígi, 3-2. 

 

Þó langt sé liðið síðan þessi leikur var spilaður. Þá eru þó nokkrir leikmenn sem verða á skýrslu liðanna í kvöld sem spiluðu þennan leik. Darri Hilmarsson, Brynjar Þór Björnsson og Jón Arnór Stefánsson spiluðu allir fyrir KR í leiknum, þá má gera ráð fyrir því að Gunnar Einarsson verði á skýrslu í kvöld, sem og spilaði Hörður Axel Vilhjálmsson allar 60 mínútur leiksins fyrir Keflavík þetta kvöldið.

 

Tölfræði leiks

 

Karfa leiksins kom undir lok annarrar framlengingar. Þá hafði Keflavík náð, með þriggja stiga körfu Gunnars Stefánssonar, að komast 3 stigum yfir, 105-108. Sex sekúndur voru eftir af leiktímanum og þurfti KR því sárlega að halda þriggja stiga körfu til þess að knýja fram aðra framlengingu. Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, tekur leikhlé til þess að setja upp þessa lokasókn. Jón Arnór fær boltann beint úr innkasti, rekur knöttinn út í horn og setur niður þriggja stiga skot, á hreyfingu útaf vellinum, með þá Sigurð Þorsteinsson, Hörð Axel Vilhjálmsson og erlendan leikmann Keflavíkur, Jesse Pellot-Rosa alla í sér. Tryggir KR þar með aðra framlengingu, þar sem aftur er jafnt í, en KR sigrar svo að lokum eftir þá fjórðu með 129 stigum gegn 124.

 

Hreint ótrúlegur leikur í heildina. Þar sem að 7 leikmenn beggja liða voru komnir útaf með 5 villur og 3 í viðbót voru að spila með 4 á bakinu. Maður leiksins (ef ekki Jón Arnór fyrir þetta skot) var Jakob Örn Sigurðarsson, en hann skoraði 31 stig, tók 10 fráköst og gaf 12 stoðsendingar á þessum 58 mínútum sem hann spilaði. Fyrir Keflavík var erlendur leikmaður þeirra, Jesse Pellot-Rosa, gjörsamlega óstöðvandi, með 51 stig, 14 fráköst, 8 stoðsendingar og 3 varin skot á því sama, 58 mínútum spiluðum.

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -