Þið munið öll eftir kók-gate málinu þar sem Jason Kidd sullaði niður glasi á gólfið til að ísa niður vítaskyttu Lakers manna og kaupa sér tíma þar sem hann átti engin leikhlé. Engar sögur fara af því hvort það hafi verið romm í kókinu hans en þetta tókst næstum því þar sem myndavélar YES sjónvarpsstöðvarinnar voru á trýninu á honum þegar hann kallaði á Tyshawn Taylor til að rekast í sig. Tap gegn Lakers og $50 þús sekt var uppskeran. En hvar lærði Kidd þetta trikk?
Fyrir ekki svo mörgum árum spiluðu Jason Kidd og félagar í Dallas Mavericks gegn Chicago Bulls sem þá voru undir stjórn Vinny Del Negro. Í þjálfarateymi Del Negro var gamall silfurrefur að nafni Del Harris. Dirk Nowitzki er á línunni að skjóta tvö skot og eftir það fyrra sullar fyrrnefndur Del Harris niður glasi sínu sem innihélt… jú mikið rétt, kóka kóla.
Til að fullkomna íróníuna í þessu öllu saman þjálfaði Del Harris hér á árum áður Los Angeles Lakers sem voru einmitt að leika gegn Brooklyn Nets í vikunni.



