spot_img
HomeFréttirÞægilegur Valssigur á Grindavík

Þægilegur Valssigur á Grindavík

Í kvöld hófst 9. umferð í Subway deild karla. Í Origohöllinni heimsóttu Grindvíkingar Valsmenn heim. Fyrir umferðina voru bæði liðin jöfn að stigum, með 10 stig ásamt reyndar 5 öðrum liðum, fáránlega jöfn keppni hingað til. Fínasta mæting, mikill meirihluti Grindvíkingar.  Valsmenn leika án Jón Arnars og Hjálmars. Leikurinn var hin prýðilegasta skemmtun, Valsmenn alltaf með undirtökin og lönduðu að lokum 13 stiga sigri 96-83.

Valsmenn byrjuðu betur í fyrsta leikhluta, voru ákafir í vörninni, en Grindavík er ekki þekkt fyrir að gefast eitthvað upp og héldu í við Valsmenn.  En það háði Grindavík að þeir voru ekkert of æstir í að spila vörn. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 27-19.

Grindavík byrjaði betur í öðrum leikhluta, settu niður fyrstu 4 stigin, en Valsmenn svöruðu með 4 stigum á móti. Leikhlutinn var í járnum allan tímann, Valur leiddi án þess þó að hafa einhverja forystu að ráði. Bæði lið virtust ekkert alltof ánægð með alla þá dóma sem voru dæmdir, sérstaklega Grindavík. En þessi leikhluti fór jafnt og staðan í hálfleik 50-42.

Valsmenn komu svo mun sterkari út í seinni hálfleikinn hittu vel ofaní á meðan lítið var að ganga hjá gestunum. Þegar um 4 mínútur voru eftir voru Valsmenn komnir með 19 stiga forystu, þá tóku Grindvíkingar leikhlé. Það svínvirkaði, Basile setti niður tvær þriggja stiga körfur og Valsmenn tóku leikhlé. Það dugði og Valsmenn tóku aftur öll völd á vellinum. Staðan fyrir síðasta leikhluta 82-66, lítil sem engin vörn hjá gestunum og skoruðu Valsmenn 32 stig í þessum leikhluta.

Eins og það var mikið skorað í þeim þriðja, þá var skrúfað hressilega fyrir það í byrjun fjórða.Grindavík söxuðu aðeins á forskotið. Valsmenn gerðu samt sitt til að halda þeim frá sér, Kristinn Páls setti niður nokkrar rándýrar körfur og endaði þetta sem nokkuð þægilegur sigur, 96-83.

Hjá Val var ansi jöfn stigaskorunin, atkvæðamestur var Kristinn Páls með 28 stig, næstur var Jeffersson með 19 stig.  Hjá Grindavík var Basile með  26 stig og Kane með 24 stig.

Næstu leikir eru 7. des, þá fara Valsmenn í Smárann og heimsækja Breiðablik, síðan fá Grindvíkingar Stjörnumenn í heimsókn, væntanlega í Smáranum líka.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -