spot_img
HomeFréttirÞægilegur útisigur hjá Haukum

Þægilegur útisigur hjá Haukum

FSu tók á móti Haukum í Iðu í fyrsta leik beggja liða í 1. deild karla á Íslandsmótinu þetta haustið. Í stuttu máli voru Haukarnir sterkari og unnu þægilegan 18 stiga sigur, 79-97.
 
Það var auðséð strax á fyrstu mínútunum að Haukarnir eru komnir miklu lengra áleiðis með sinn leik en FSu-liðið. Varnarleikur þeirra var allur mun skipulegri og sóknaraðgerðir markvissari, mun meiri heildarsvipur og liðsbragur var á liði gestanna frá Hafnarfirði. Þó FSu næði ágætum sprettum í sínum leik voru mistökin of mörg, flæðið í sókninni var stirt á köflum og menn greinilega ekki enn farnir að átta sig á öllum möguleikum sóknarkerfanna. Það vantaði að fleiri leikmenn horfðu á körfuna og nýttu sín sóknarfæri. Varnarleikurinn var dapur á köflum og gestrisnin of mikil í fráköstunum. Haukarnir keyrðu upp hraðann allan tímann og gáfu engin grið eftir mistök heimamanna, sem voru með 18 tapaða bolta í leiknum, og skoruðu því margar auðveldar körfur úr hraðaupphlaupum. Í hálfleik var staðan 31-53, en FSu hafði þá meira að segja tekist að minnka muninn nokkuð, svona rétt fyrir leikhléið.
 
Í þriðja leikhluta kom allt annað FSu lið inn á völlinn. Kannski voru Haukarnir eitthvað værukærir, en heimamenn voru þá allavega líka mun beittari í sínum aðgerðum, enda unnu þeir þriðja hluta 30-21, skoruðu í honum nánast jafn mikið og í öllum fyrri hálfleiknum. Í síðasta fjórðungi náði FSu að koma muninum niður fyrir tveggja stafa tölu en lengar komust heimamenn ekki og Haukar unnu að lokum þægilegan sigur, eins og fyrr er getið.
 
Hjá Haukum voru Haukur Óskarsson og Emil Barja langbestir, báðir áttu alveg feikngóðan leik. Haukur var þeirra stigahæstur með 23 stig, 5 stoðsendingar og 3 stolna bolta en Emil skoraði 22 stig, gaf 5 stoðsendingar og tók 5 fráköst, og skotnýting hans var hreint út sagt frábær, af öllum færum. Emil var með hæsta leikframlag allra í leiknum, 29 stig.
 
Bandaríkjamaður Hauka, Aaron Williams, var nokkuð mistækur, hitti ekki vel utan af velli og missti nokkra bolta, en setti niður sniðskotin. Þetta er þó sprækur og duglegur strákur og á væntanlega eftir að ná sér betur á strik. Athygli vekur að Haukarnir voru með 50% nýtingu í þristum, betri en í styttri skotum. Reyndar tóku liðin samtals 51 þriggja stiga skot í leiknum og nýting beggja ótrúlega góð, FSu með 40%.
 
Hjá FSu drógu Ari Gylfason og Daði Berg Grétarsson vagninn, eins og við mátti búast. Sérstaklega var Ari magnaður í leiknum með 34 stig og frábæra þriggja stiga nýtingu, en hann setti 7 af 15 eða 46,7% skotanna. Á 40 mínútum tók hann 7 fráköst, fiskaði 6 villur og hitti úr 7 af 8 vítum, 25 framlagsstig. Mikið mæddi einnig á Daða, sem skoraði 25 stig, tók 6 fráköst og gaf 11 stoðsendingar, en skorti upp á yfirvegunina á köflum, sem dró aðeins niður hans leik. Þetta getur Daði auðveldlega lagað og verður þá magnaður leikstjórnandi. Eins og fyrr var sagt vantaði meira framlag frá öðrum leikmönnum. Svavar Stefánsson sýndi stöku sinnum hvers hann er megnugur, en þarf að gera það miklu oftar. Arnþór Tryggvason sýndi afbragðsbaráttu, sérstaklega í seinni hálfleik. Hann var öflugastur heimamanna í fráköstum, með alls 12.
 
Leikurinn var í öruggum höndum ágætra dómara, þeirra Jóns Bender og Þorsteins Jóhanns Þorsteinssonar sem héldu sig frekar til hlés, eins og góðum dómurum sæmir.
 
Umfjöllun og mynd/ Gylfi Þorkelsson  
Fréttir
- Auglýsing -