spot_img
HomeFréttirÞægilegur sigur Skallagríms gegn trúlausum Haukum

Þægilegur sigur Skallagríms gegn trúlausum Haukum

Skallagrímur komst í annað sæti deildarinnar ásamt Snæfell með öruggum sigri á Haukum í dag. Þeir sem höfðu vonast eftir spennandi og skemmtilegum leik í kvöld urðu fyrir vonbrigðum því Skallagrímur hafði forystuna allan leikinn og var sigur liðsins ansi þægilegur. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má sjá hér að neðan:

 

Þáttaskil.

Skallagrímur var einfaldlega betra lið á öllum stöðum vallarins í dag. Þær náðu strax forystu og þrátt fyrir að Haukar hafi haldið nokkuð í þær í fyrsta leikhluta varð ekkert framhald af því restina af leiknum. Haukar settu eingöngu fjögur stig í öðrum leikhluta og leik lokið í hálfleik. Haukar áttu engin svör og komust ekki yfir 40 stig í leiknum í dag. Skallagrímur sótti því ansi þægilegan 38-74 sigur og gat liðið hreinlega leyft sér að spila seinni hálfleikinn í öðrum gír.

 

Tölfræðin lýgur ekki.

Skotnýting Hauka var einstaklega döpur í kvöld og því mikið af fráköstum í boði. Skallagrímur tók heil 67 fráköst og þar af 24 sóknarfráköst. Skallagrímur stal 14 boltum í leiknum en það er áhugavert að gestirnir tapa samt fleiri boltum en Haukar í dag. Haukar tóku 24 þriggja stiga skot í leiknum, hittu bara úr einu skoti og það alveg í blálokin. Þetta gerir 4% skotnýtingu sem er langt frá því að vera vænlegt til árangurs.

 

Hetjan.

Hin reynslumikla Kristrún Sigurjónsdóttir átti sinn besta leik á tímabilinu í kvöld. Hún var með 23 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar og tók af skarið sóknarlega þegar liðinu gekk illa. Allir leikmenn Skallagríms fengu góðar mínútur í leiknum og áttu fínan leik enda mótstaðan því miður lítil í leiknum.

 

Kjarninn.

Skallagrímur komst aftur á sigurbraut með þessum örugga sigri en liðið átti þrátt fyrir það engan draumaleik. Liðið tapaði 23 boltum og sóknarleikur þeirra var oft seigur og hægur að bregðast við varnaraðgerðum Hauka. Frammistaðan samt sem áður skref frammá við frá leiknum gegn Keflavík. Skallagrímur er með sigrinum komið upp að hlið Snæfels í þriðja sæti deildarinnar. Ef liðið finnur taktinn því betur á næstu vikum er ekki hægt að útiloka það í toppbaráttunni.

 

Haukar komu ekki tilbúnar til leiks og var trúin ekki til staðar. Liðinu vantar bersýnilega einhvern sem tekur á skarið sóknarlega. Kelia Shelton átti mjög slaka frammistöðu í dag, hitti ekkert og sóknarleikur liðsins stoppaði oft á henni. Haukar verða að fá meira frá henni eða fá nýjan erlendan leikmann eftir áramót. Ef liðið skilar fleiri hörmungar frammistöðum á borð við þessa í kvöld er ljóst að Haukar munu leika í 1. deild að ári.

 

Tölfræði leiksins

 

Mynd / Ómar Örn Ragnarsson – Kristrún Sigurjónsson átti frábæran leik fyrir Skallagrím í dag.

Fréttir
- Auglýsing -