spot_img
HomeFréttirÞægilegt hjá Þór í Síðuskóla

Þægilegt hjá Þór í Síðuskóla

Þórsarar unnu frekar þægilegan sigur á nýliðum Augnabliks 97 – 65 í afar rólegum leik í gærkvöld sem fram fór á Akureyri. Eins og tölurnar gefa til kynna var leikurinn frekar ójafn nema þó kannski í upphafi leiks þegar gestirnir bitu örlítið frá sér. Að fyrsta leikhluta undanskildum var sigur heimamanna aldrei í hættu og það eina sem gladdi augað var vaskleg frammistaða yngri leikmanna Þórs.
 
 
Rútuferðin norður virtist sitja örlítið í gestunum í byrjun leiks en þeir annað hvort misstu knöttinn klaufalega eða tóku ótímabær skot. Heimamenn nýttu sér byrjunarörðuleika gestanna til fulls og náðu fljótt forystu, 16 -5. Eftir efnilega byrjun þá slökuðu heimamenn heldur betur á, fóru að taka lélegar ákvarðanir og smá saman unnu gestirnir sig aftur inn i leikinn. Með þá Jón Orra og Leif Stein í broddi fylkingar (en þeir félagar skoruðu 12 stig í fjórðungnum) náðu gestirnir góðum 14 – 4 spretti og skyndilega var staðan orðin 20 – 19 heimamönnum í vil.
 
Bjarki Oddsson þjálfari Þórs hefur eflaust ekki verið ánægður með strákanna sína, sem margir hverjir voru að spila á hálfum hug og héldu kannski að stigin væru þegar komin í hús. Eitthvað hefur Bjarki sagt við þá þvi að Þórsarar byrjuðu annan leikhluta af krafti. Elías Kristjánsson og Jarrell Crayton voru í ágætis stuði en Elías setti niður þrjá þrista á meðan Jarrell setti niður 10 stig. Heimamenn fóru jafnframt að pressa á gestina sem voru í töluverðum vandræðum með varnarleik heimamanna. Smá saman fór Þórsarar að draga sig frá gestunum og áður en fyrri hálfeik lauk voru heimamenn komnir með 18 stiga forskot 50 – 32.
 
Leikmenn beggja liða voru ekki nógu vel upplagðir í byrjun síðari hálfleiks en bæði lið voru aftur í sama pakkann og í byrjun fyrri hálfleiks; missa knöttinn klaufalega eða tóku ótimabær skot. Sem leið á þriðja fjórðung voru heimamenn ívið kærulausari en gestirnir sem reyndu að saxa á forskot heimamanna eins mikið og þeir gátu. Jón Orri Kristinsson reyndi að drífa gestina áfram í síðari hálfleik með að setja niður 8 stig í þriðja leikhluta en munurinn á liðunum var einfaldlega of mikill og staðan því 71 – 53 heimamönnum i vil og einungis spursmál um hversu stór sigur heimamanna yrði.
 
Fjórði leikhluti var í raun einungis formsatriði. Það eina sem gladdi augað þó í lokafjórðungnum var innkoma yngri leikmanna Þórs en eins og Bjarki kom að í viðtali við fréttaritara í leikslok;
Ég var virkilega ánægður með ungu strákanna. Þeir lögðu sig fram og ég sá framfarir hjá þeim bara á milli leikja. Það var smá skjálfti í þeim gegn Vængjum Júpiters en það var bara gaman að sjá þá koma svona einbeitta inn.
 
Það var alveg klárt að ungu leikmenn Þórs ætluðu að sýna sig og kom það berlega í ljós að þeir komu með allt annað hugarfar inn í þennan leik heldur en síðasta deildarleik gegn Vængjum Júpiters. Ungu strákarnir þeir Daníel Andri Halldórsson, Páll Hólm Sigurðsson og Svavar Sigurðarsson skoruðu 12 af 26 stigum heimamanna í fjórðungnum. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá Svavar skora sín fyrstu stig með meistaraflokki. Annað í fjórðungnum gladdi ekki augað en svo fór að lokum að heimamenn silgdu öruggum, 97 – 65 sigri og þar með nauðsynleg tvö stig í hús.
 
Liðsmenn Augnablik geta þó borið höfuðið hátt enda börðust þeir allan tímann en styrkleikamunur liðanna var einfaldlega óyfirstíganlegur fyrir gestina. Jón Orri Kristinsson var að öllum ólöstuðum besti maður gestanna með 26 stig. Leifur Steinn Árnason var einnig öflugur með 15 stig og ekki má gleyma Matthíasi Ásgeirssyni sem átti prýðisleik með 18 stig og 10 fráköst.
 
Rétt eins og í leiknum gegn Vængjum Júpiters fengu allir leikmenn Þórsara að spreyta sig en í þetta skiptið náðu allir að koma sér á blað. Sindri Davíðsson var atkvæðamestur heimamanna með 18 stig en þeir Jarrell (14 stig), Ólafur Aron (12 stig) og Elías Kristjánsson (13) sem jafnan eru burðarrásin í liðinu áttu frekar rólegan dag. Reinis Bigacs vakti þó athygli í kvöld með 14 stig, 10 fráköst og 88% skotnýtingu.
 
 
Umfjöllun – Sölmundur Karl Pálsson
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -