Snæfell, Haukar og Stjarnan eru komin í undanúrslit kvenna í Poweradebikarkeppninni en Snæfell var rétt í þessu að skella Fjölni í Dalhúsum. Snæfell gerði 28 stig strax í fyrsta leikhluta og settu tóninn fyrir því sem koma skyldi. Lokatölur reyndust 45-90 Snæfell í vil þar sem Kieraah Marlow, Hildur Sigurðardóttir og Alda Leif Jónsdóttir fóru fyrir gestunum.
Hólmarar mættu með læti í Dalhús í dag og leiddu 15-28 að loknum fyrsta leikhluta og lengi vel í öðrum leikhluta héldu yfirburðirnir áfram eða þar til í stöðunni 19-40. Fjölniskonur gyrtu þá loks í brók og minnkuðu muninn í 33-42 með 14-2 áhlaupi sem lauk með þriggja stiga körfu frá Brittney Jones.
Þegar tæpar þrjár mínútur voru til hálfleiks tók Ingi Þór Steinþórsson leikhlé fyrir Snæfell og gestirnir komu á ný inn á parketið vopnaðar svæðisvörn. Vörnin lagðist illa í Fjölniskonur og Alda Leif Jónsdóttir naut sín sem klóki leikmaðurinn og komst í þrígang í hraðaupphlaup eftir að hafa slætt sér inn í sendingu Fjölniskvenna og Snæfell leiddi 36-47 í hálfleik.
Brittney Jones gerði 24 stig af 36 hjá Fjölni í fyrri hálfleik og bar liðið á herðum sér á meðan álagið dreifðist betur hjá Hólmurum, Kieraah Marlow var með 15 stig og Hildur Sigurðardóttir 11.
Fjölniskonur fengu lítið að taka þátt í þriðja leikhluta því þær komust hvorki lönd né strönd gegn svæðisvörn Snæfells sem virtust þó ekki vera í fimmta gír, fjarri lagi. Hlutirnir gengu þægilega hjá gestunum á meðan Fjölniskonur voru andlausar, svo andlausar að þær skoruðu aðeins fjögur stig í leikhlutanum og Snæfell leiddi 40-69 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Til að bæta gráu ofan á svart hjá Fjölni var það vitaskuld Brittney Jones sem skoraði öll fjögur stig heimakvenna í leikhlutanum og ljóst að stöllur Brittney í gulu gera of mikið af því að horfa á hana leika listir sínar án þess að krefja hana um boltann.
Fjórði leikhluti var aldrei spennandi eins og gefur að skilja en athygli vekur að Fjölnir gerði aðeins níu stig samtals allan síðari hálfleikinn, lokatölur 45-90. Fjölnir beit aldrei frá sér í síðari hálfleik, svæðisvörn Snæfells var þeim um megn.
Kieraah Marlow gerði 32 stig og tók 14 fráköst í liði Snæfells, Alda Leif Jónsdóttir bætti við 19 stigum, 9 fráköstum og 4 stoðsendingum og Hildur Sigurðardóttir gerði 16 stig, tók 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.
Hjá Fjölni var Brittney Jones í sérflokki með 30 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Aðrir leikmenn liðsins voru afar bragðdaufir í dag.
Heildarskor:
Fjölnir: Brittney Jones 30/6 fráköst, Birna Eiríksdóttir 6/6 fráköst, Bergdís Ragnarsdóttir 4/6 fráköst, Katina Mandylaris 2/8 fráköst, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir 2/4 fráköst, Eva María Emilsdóttir 1/4 fráköst, Margrét Helga Hagbarðsdóttir 0, Dagbjört Helga Eiríksdóttir 0, Erla Sif Kristinsdóttir 0, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 0, Margrét Loftsdóttir 0, Sigrún Gabríela Jóhannsdóttir 0.
Snæfell: Kieraah Marlow 32/12 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 19/9 fráköst, Hildur Sigurdardottir 16/9 fráköst/7 stoðsendingar, Björg Guðrún Einarsdóttir 8, Hildur Björg Kjartansdóttir 7/7 fráköst, Sara Mjöll Magnúsdóttir 6, Ellen Alfa Högnadóttir 2, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 0/7 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 0, Aníta Sæþórsdóttir 0.
Liðin sem komin eru í undanúrslit Poweradebikar kvenna:
Snæfell
Haukar
Stjarnan
Njarðvík-Keflavík?