spot_img
HomeFréttirÞað kemur ávallt maður í manns stað!

Það kemur ávallt maður í manns stað!

 
Hrikalega sterkir og skemmtilegir leikmenn hafa undið sínu kvæði í kross hérlendis eftir að síðustu leiktíð lauk. Pavel Ermolinski ætlar til Svíþjóðar, Hörður Axel Vilhjálmsson mun reyna fyrir sér í Þýskalandi, Brynjar Þór Björnsson ætlar einnig að glíma við Svíana og bakvarðaparið efnilega Tómas og Ægir munu kveðja Fjölni og halda til náms í Bandaríkjunum.
Friðrik Heimaklettur Stefánsson og Páll ,,leðurlungu“ Kristinsson hafa lagt skóna á hilluna sem og jaxlinn Gunnar Einarsson og víst er að Marcus Walker snýr ekki aftur. Frá yngri og óreyndari leikmönnum munu því ferskir vindar blása um Iceland Express deild karla á næstu leiktíð og sumarið hefur þegar haft töluverðar breytingar með sér í för. Einhverjum hefur orðið það á í messunni að halda að gæðum deildarinnar muni fyrir vikið hraka.
 
Í fyrsta stað er það viðurkenning á því sem við erum að gera hér heima að fleiri og fleiri leikmenn skuli finna sér sess á erlendum vettvangi. Sjálfselskir körfuboltaunnendur eins og undirritaður bölva því vissulega að missa gæðaleikmenn úr úrvalsdeildinni en blessunin sést langar leiðir og ef þessi landflótti verður til einhvers ætti hann vissulega að gagnast landsliðinu okkar, fleiri leikmenn í sterkari deildum hlýtur að þjóna okkar hagsmunum í alþjóðlegum keppnum.
 
Fæstir sjá kannski tækifærið sem yngri og óreyndari leikmenn verða að nýta sér en af ungum og efnilegum leikmönnum eigum við nóg. Fyrir meistaralið eins og KR sem sér á eftir kanónum á borð við Pavel, Brynjar og Marcus er ekki úr vegi að smokra að Martin Hermannssyni, þar fer efnilegur bakvörður. Í Keflavík mun Valur Orri Valsson vísast fá að spreyta sig fyrst Hörður Axel er farinn og svona mætti lengi telja, víða finnast sterkir ungir leikmenn sem munu taka næstu skref á sínum ferli og láta að sér kveða í efstu deild.
 
Keppnin um bikarmeistaratitilinn og Íslandsmeistaratitilinn verður ekkert minni á komandi leiktíð en á þeim síðustu og fólk er kannski fljótt að gleyma en síðustu úrslitakeppnir hafa verið mikla skemmtanir.
 
Ég hef orðið var við að mönnum þyki heldur mikið hafa horfið á braut þetta sumarið en vissulega samgleðjast allir þeim köppum sem komu ár sinni fyrir borð í stærri deild, í hringiðu fleiri og stærri tækifæra. Vöntun hefur þó verið á að fólk gefi okkar ungum leikmönnum gaum, leikmönnum sem hafa síðustu ár verið að hala inn Norðurlandameistaratitlum og taka þátt í Evrópukeppnum. Það eru sterkir leikmenn að banka á dyrnar í meistaraflokkunum og því engin ástæða til þess að missa svefn yfir því sem orðið er. Það kemur ávallt maður í manns stað!
 
Jón Björn Ólafsson
Ritstjóri Karfan.is
 
Mynd/ Galdramaðurinn Pavel Ermolinski gladdi margan körfuboltaunnandann á síðustu leiktíð en Sundsvall Dragons í Svíþjóð munu notast við hans kraft á komandi tímabili þegar þeir hefja titilvörn sína.
Fréttir
- Auglýsing -