spot_img
HomeFréttir"Það er hægt að brjóta þá, eins og Stólarnir sýndu í Síkinu"

“Það er hægt að brjóta þá, eins og Stólarnir sýndu í Síkinu”

 

Þriðji leikur úrslitaeinvígis KR og Tindastóls fer fram annað kvöld, í DHL höllinni kl. 19:15. Fyrir leikinn höfðu liðin skipt með sér einum sigri hvort, en til þess að sigra þarf annaðhvort liðanna að sigra þrjá leiki. Liðin tvö, hafa sýnt af sér í leikjunum tveimur að þarna eru alveg örugglega á ferðinni rjómi Íslensks körfubolta þetta árið. KR með sína leikreynslu, hæfileika og vilja til þess að verja titil í fyrsta skipti í sögu félagssins (frá því að úrslitakeppnin var sett á laggirnar) á meðan að Tindastóll, þó reynslan sé vissulega til staðar, keyra sitt lið mikið til á ungum leikmönnum í bland við eldri og kannski þeirri staðreynd að (þó liðið hafi vissulega gert tilkall áður) ná í sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil.

 

Gefur augaleið að fyrir leik eins og þann er fram fer á morgun, eru það ekki bara áhangendur beggja liða sem bíða í ofvæni, heldur einnig hinn almenni körfuboltaáhugamaður. Við settum okkur í samband við ritstjóra Nútímans, hann Atla Fannar Bjarkason og fengum að kryfja hann nokkurra léttra svara, en fyrir þá sem ekki vita, er kauði ein harðasta bulla þeirra vínrauðu úr Skagafirðinum.

 

Hversu lengi og afhverju fórst þú að standa við bak Tindastóls í körfubolta?

 

Ég hef alla tíð verið Tindastólsmaður. Fæddur á Króknum, bjó þar í fyrstu fjögur árin en mamma býr þar ennþá ásamt hjarta mínu og stórum hluta fjölskyldu minnar.

 

Hverjar eru þínar fyrstu góðu minningar af því að vera stuðningsmaður Tindastóls?

Fyrsta minningin tengist reyndar ekki körfubolta. Ég var kornungur þegar ég fékk Tindastólstreyju Eyjólfs Sverrissonar en körfuboltaáhuginn kom aðeins seinna og ég hef staðið með mínum mönnum í blíðu og stríðu.

 

Hver er (einn) þinn uppáhalds leikmaður í liðinu í dag og afhverju?

Ég er hrikalega hrifinn af Pétri Rúnari og Ingva Rafni. Ólíkir leikmenn sem hafa staðið sig stórkostlega í vetur, duglegir og tæknilega góðir. Maður sér ekki oft jafn unga leikmenn í svona veigamiklum hlutverkum í úrvalsdeildarliðum og þeir hafa staðið undir kröfunum sem því fylgja og gott betur.

 

Hver er þinn “all-time” uppáhalds leikmaður og afhverju?

Ég verð að segja Helgi Rafn Viggósson. Herra Tindastóll. Það kemur enginn annar til greina.

 

Hverju myndir þú þakka þessu góða gengi Stólana í vetur?

Fyrst og fremst góðri vörn. Þetta er vel samsettur hópur af ungum og reyndari leikmönnum og það hefur greinilega verið vel haldið utan um liðið. Israel Martin er augljóslega frábær þjálfari og allir virðast þekkja hlutverk sitt og leysa það vel.

 

Hvernig metur þú þetta einvígi út af fyrir sig:

Erfitt en gerlegt. KR er með breiðasta hópinn í deildinni. Allir stórir. Allir góðir. En það er hægt að brjóta þá eins og Stólarnir sýndu í Síkinu á fimmtudaginn. Allt getur gerst.

 

Hverjir eru helstu styrkleiki Tindastóls?

Frábær vörn og allir geta neglt niður þristum.

 

Hverjir eru helstu styrkleikar KR?

Frábær vörn og allir geta neglt niður þristum.

 

Hvernig á serían eftir að spilast út eftir þessa fyrstu tvo leiki?

Ég veit það ekki. Ég er gríðarlega spenntur að sjá hvernig þetta fer í kvöld. Það væri frábært að fá Dempsey inn í liðið þar sem það er rándýrt að missa mann sem er að setja 20 stig og rífa niður 10 fráköst að meðaltali í leik úr svona seríu. Sérstaklega þegar mótherjinn er KR og miðherjinn þeirra heitir Michael Craion. En hvernig sem það fer vona ég að mínir menn gefi KR-ingunum engan séns og haldi áfram að hnoða þá eins og í síðasta leik.

 

Ef vínrautt blóð rynni þér ekki í æðum, hvaða liði hefðir þú haldið með þennan veturinn og afhverju?

Haukarnir heilluðu mig í vetur og ég hlakka til að fylgjast með þeim á næsta tímabili.

Fréttir
- Auglýsing -