13:05
{mosimage}
(Telma Fjalarsdóttir)
Telma B. Fjalarsdóttir verður ekki með toppliði Hauka næstu 6-8 vikurnar í Iceland Express deild kvenna þar sem hún meiddist í hné í bikarleiknum gegn KR og Haukar máttu sætta sig við að detta út úr keppninni. Þetta er í fyrsta sinn sem Telma meiðist á sínum úrvalsdeildarferli en hún kvaðst þess viss í samtali við Karfan.is að Haukakonur myndu halda áfram á sömu braut og að hún ætlaði sér að koma sterk inn í úrslitakeppnina.
,,Ég lenti í samstuði snemma í leiknum gegn KR með þeim afleiðingum að það small eitthvað í hnénu, ég reyndi að spila eitthvað aðeins eftir þetta en fann að hnéð var ekki í lagi,“ sagði Telma sem í gær heimsótti bæklunarlæknir sökum meiðslanna.
,,Hann greindi vel trosnað liðband í hné en þar sem bólgan var frekar mikil þá gat hann ekki greint liðþófann. Ég mun fara í röntgenmyndatöku og ómskoðun til að fá að vita nánar um meiðslin. Ég krossa bara puttana þangað til,“ sagði Telma sem sagði að sögn læknis yrði hún frá í a.m.k. næstu 6-8 vikurnar. ,,Ég vonast auðvitað til að vera fyrr á ferðinni en þetta er í fyrsta skipti sem ég meiðist á mínum ferli svo þetta er búið að taka svolítið á,“ sagði Telma og bætti við að tímasetningin væri sérlega erfið.
,,Það er alveg hrikalegt að vera að detta út núna þegar spennan er að magnast og gengi liðsins hefur verið svona gott en þetta er partur af íþróttinni og ég verð bara að vera jákvæð og koma þá sterk inn í úrslitakeppnina. Ég er samt ekki í neinum vafa um að stelpurnar haldi áfram á sömu braut þar sem breiddin í liðinu er góð og það kemur alltaf maður í manns stað,“ sagði Telma sem kann ekkert ofboðslega vel við tréverkið.
,,Mér líkar ekkert of vel við það, það er frekar óþægilegt að sitja svona lengi á því í senn. Það mætti alveg skoða það að bólstra þessa bekki,“ sagði Telma nokkuð kát og ljóst að hún hefur ekki tapað kímnigáfunni þrátt fyrir erfið meiðsli.



