spot_img
HomeFréttirTekur Teitur við Njarðvík ??

Tekur Teitur við Njarðvík ??

TeiturTeitur Örlygsson sækist eftir því að fá að taka við meistaraflokksliði karla hjá Njarðvíkingum, sem eru nú þjálfaralausir eftir að Einar Árni Jóhannsson hætti með liðið. Teitur hefur ekkert komið að Njarðvíkurliðinu síðan hann lagði skóna á hilluna vorið 2003.

af vísir.is

Áhugi minn á körfubolta dofnaði aðeins en síðan blossaði hann upp aftur og ég sá að ég gat ekkert verið án þess að lifa og hrærast í körfunni. Ég hætti aldrei að fylgjast með liðinu en núna er ég klár aftur og mig langar alveg rosalega að taka þátt í þessu," segir Teitur. Hann er sigursælasti körfuboltamaður Íslands frá upphafi, vann tíu Íslandsmeistaratitla og sjö bikarmeistaratitla með Njarðvík á árunum 1984 til 2002 og er bæði leikjahæsti (406) og stigahæsti (6.597) leikmaður félagsins frá upphafi.

„Ég segi ekki að ég sé að fara aftur í þjálfun. Þetta yrði í fyrsta skipti sem ég yrði alvöru þjálfari. Þetta ár sem ég var með Friðriki Ragnarssyni þróaðist það þannig að Friðrik tók við þessu og ég var bara leikmaður. Ég var að spila þarna í kringum 35 mínútur í leik og Friðrik tók þetta því að sér," segir Teitur en saman gerðu þeir Njarðvíkinga að Íslandsmeisturum sumarið 2001.

Teitur var titlaður þjálfari þennan veturinn en í kjölfar hans tók Friðrik við og þjálfaði Njarðvíkurliðið til ársins 2004. „Þetta yrði mitt fyrsta tækifæri þar sem ég fengi að vera með lið frá byrjun. Ég er búinn að láta þá vita af því að ég hef áhuga á þessu og mér heyrist að þeir séu jákvæðir fyrir mér," segir Teitur og bætir við: „Við eigum eftir að funda saman en ég kem sterklega til greina og ég er gríðarlega spenntur."

mynd
Frábær leikmaður Teitur Örlygsson skoraði 6.597 stig í 406 leikjum fyrir Njarðvík í úrvalsdeild karla.

Teitur veit að kröfurnar eru miklar í Njarðvík og þekkir það sem leikmaður. „Í Njarðvík eru svolítið klikkaðar kröfur. Út af velgengni liðsins undanfarin ár þekkir fólk ekkert annað í bænum og þá ósjálfrátt myndast svona miklar kröfur," segir Teitur, sem þekkir það frá sínum tíma sem leikmaður að til mikils er ætlast af meistaraflokksleikmönnum Njarðvíkur.

 

Njarðvíkingar hafa haft þann háttinn á að ráða Njarðvíkinga sem þjálfara. Hrannar Hólm, sem þjálfaði liðið frá 1995-1996, er síðasti þjálfarinn sem er ekki uppalinn Njarðvíkingur og er sá eini fyrir utan erlenda þjálfara í sigursælli sögu Njarðvíkur í úrvalsdeild karla sem ekki hefur komið upp í gegnum félagsstarfið. Það er ekki ólíklegt að Teitur Örlygsson bætist í hópinn og lengi keðjuna enn frekar.

Fréttir
- Auglýsing -