Símon B. Hjaltalín ræddi við Teit Örlygsson þjálfara Stjörnunnar og Inga Þór Steinþórsson þjálfara Snæfells eftir viðureign liðanna í Stykkishólmi í kvöld. Stjarnan tók 2-1 forystu í seríunni.
Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar:
“Það var bara frábær leikhluti hjá okkur í öðrum hluta varnarlega og í sókn líka. Þeir skora á okkur 27 stig í fyrsta hluta og komu sterkir til leiks, en eftir að við komust hressilega yfir í öðrum hluta fannst mér þetta aldrei spurning. Við vorum að skila fyrirmyndar nýtingu á köflum í leiknum og við eigum ekki að tapa svoleiðis þó okkur hafi tekist það um daginn en við héldum því núna þar sem við komum með mikið betra framlag í vörninni líka sem ekki var áður og í úrslitakeppninni gengur þetta út á það. Við þurfum að halda áfram að bæta okkur í næsta leik. Við höfum verið að bæta okkur hægt og fannst mér þetta skásti leikurinn gegn Snæfelli og ánægður með að ná öruggum sigri á útivelli og nú höldum við áfram að einbeita okkur að okkar liði og við viljum að sjálfsögðu klára dæmið á föstudag.”
Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells:
”Varnarlega séð vorum við hræðilega slappir og með svona lið gegn sér þá er þér bara refsað þar sem þeir hittu fáránlega vel í fyrri hálfleik. Þeir eru náttúruleg með fjóra gæðaleikmenn, erlenda leikmenn í háklassa og ef þú spilar ekki á fullum styrk gegn þeim þá áttu ekki séns og við einfaldlega heppnir að tapa ekki með meiri mun en raun bar vitni. Auðvitað mjög slæmt að missa Jay sem hefur borið uppi sóknarleikinn í vetur og Pálmi hefur ekki verið að spila leikstjórnanda í vetur svona heilt yfir en við getum ekkert falið okkur á bak við það. Þetta var kannski ekki harður leikur þrátt fyrir einhverjar óíþróttamannslegar villur hér og þar en fyrst sú lína var lögð í leiknum þá var ekki tilefni til að sleppa því þegar Justin fór í Ryan sem tók hann útúr leiknum hvort sem það var óvart eða ekki. Við erum að fara í Garðabæ að jafna.”



