spot_img
HomeFréttirTeitur Örlygsson: Í mars og apríl eru allir klárir

Teitur Örlygsson: Í mars og apríl eru allir klárir

12:09

{mosimage}

 

(Teitur í styrktarleiknum á dögunum) 

 

Ítarlegt viðtal við Teit Örlygsson er að finna á vefsíðu UMFN, www.umfn.is en hann er vafalaust einvher besti körfuknattleiksmaðurinn sem Njarðvík hefur alið af sér og einn ástsælasti leikmaður þjóðarinnar. Ekki er svo ýkja langt síðan hann lék körfubolta síðast en þá tók hann fram skónna í styrktarleik til handa Magnúsi Gunnarssyni og fjölskyldu hans. Karfan.is birtir hér að neðan viðtalið við Teit í heild sinni af Njarðvíkursíðunni en við bendum lesendum einnig á að kíkja á síðu Njarðvíkinga en hún er jafnan vel uppfærð og þá sér í lagi þegar komið er í úrslitakeppnina.

 

Í mars og apríl eru allir klárir  

Teit Örlygsson þarf vart að kynna fyrir íslenskum körfuknattleiksunnendum. Teitur er sigursælasti leikmaður íslensks (karla) körfuknattleiks og af mörgum talinn besti íslenski leikmaðurinn frá upphafi. Teitur varð 10 sinnum Íslandsmeistari með liði UMFN og átta sinnum Bikarmeistari auk þess að vinna fjölda annara titla. Teitur hefur einnig verið valinn besti leikmaður íslensku deildarinnar 4 sinnum eða oftast allra leikmanna. Það er a.m.k. ljóst að fáir búa yfir þeirri gríðarlegu reynslu sem Teitur býr yfir enda tók hann þátt í úrslitakeppninni 18 sinnum og hefur leikið vel yfir 100 leiki í úrslitakeppninni. Tólf sinnum lék Teitur með liði UMFN í lokaúrslitum Íslandsmóts og eins og fyrr segir var kappinn 10 sinnum í sigurliði. Teitur var þannig leikmaður sem naut sín best undir pressu og átti oftar en ekki sína bestu leiki í úrslitakeppninni.

Óbilandi sigurvilji og sterkur persónuleiki einkenndu Teit og fjölhæfni hans á vellinum var mikil. Stuðningsmenn UMFN muna vel eftir löngu 3ja stiga bombunum sem Teitur lét vaða liggur við frá miðjum vellinum, heyra mátti stúkuna taka andköf þegar boltinn rann úr lúkum kappans sem oftar en ekki fylgdu hávær fagnaðarlæti í kjölfarið þegar knötturinn söng í netinu. Teitur lék allan sinn feril með UMFN, fyrir utan eitt tímabil þar sem kappinn lék með Larissa í Grikklandi. Teitur Örlygsson lagði skóna á hilluna vorið 2003 eftir hreint út sagt ótrúlega farsælan feril og var mikil eftirsjá í þessum magnaða leikmanni. Teitur sést nú oft og iðulega á pöllum Ljónagryfjunnar og er þá ýmist að naga neglurnar nú eða að hvetja leikmenn UMFN til dáða og einstaka sinnum lætur hann dómarana heyra það!  Þessi frægi augnsvipur Teits sést því enn og aftur í Ljónagryfjunni en að þessu sinni frá áhorfendabekkjunum. Við settum okkur í samband við Teit og spurðum hann spjörunum út. 

Fyrst af öllu, hvernig er það fyrir mann eins og þig að fylgjast bara með úr “Stúkunni”?  Helduru að það venjist einhver tíman?

Já, já ég er búinn að sætta mig við það að geta ekki gert betur en strákarnir 🙂 Annars hef ég mjög gaman af því að spá og spekulera hvað við erum að gera inná vellinum og sjá strákana spila vel. Er allvega jafn tapsár og ég var á árum áður og geri alltaf miklar kröfur til liðsins þannig að þeir hafa fengið góðan frið fyrir mér í vetur. Annars er ég alltaf sáttur ef leikmenn gefa sig 110% í leiki því þá eru líkur okkar á sigri yfirgnæfandi. Ég tek strax eftir því ef leikmenn eru ekki á fullu af því ég þekki þá alla svo vel. Í úrslitakeppni er þetta ekki vandamál, í mars og apríl eru allir klárir! 

Hvernig finnst þér Iceland Express deildin hafa spilast í vetur?

Nokkurn veginn eins og ég bjóst við ef undan er skilin slök frammistaða félaga okkar í Keflavík. Annars er hitt allt saman eftir bókinni, okkar lið er mun þéttara en áður. Ungu strákarnir árinu eldri og fyrir Einar þjálfara er mjög gott að vera með sama mannskapinn sem auðveldar honum starfið. Fyrir okkur hefur deildin spilast vel, við fórum í gegnum erfitt tímabil en snérum því í glæsilega sigurgöngu sem sér ekki fyrir endann á. Þessi bikarleikur var auðvitað svekkelsi og þá er bara snúa sér að næsta verkefni og landa stóra titlinum enn og aftur. Ég er á því að það sé aðeins meiri breidd í deildinni þó eru 2-3 lið með mjög gott byrjunarlið en handónýtan varamannabekk.  

Nú er úrslitakeppnin nýhafin, hvernig lýst þér á stöðu mála þar. Hverju spáir þú um framhaldið?

Þetta fer virkilega vel af stað og ágætt að við byrjum á því að fá “gula spjaldið” í fyrsta leik, liðið fór aftur á tærnar og svaraði því með öruggum útisigri gegn H/S. Nú liggur fyrir að við fáum Grindavík í undanúrslitum og í fljótu bragði þá finnst mér munurinn liggja í því að við erum með þónokkra yfirburði í teignum. Þá meina ég ekki bara í kílóum og sentimetrum heldur getulega. Ef við finnum gott jafnvægi í sóknarleik okkar þá get ég ekki séð að þeir hafi mannskap í 40 mínútur inní teig. Það gerir það einnig að verkum að það hægist á þeirra leik og þeir ná ekki þessum auðveldu körfum. Þannig unnu þeir Skallagrím. Keyrðu í bakið á þeim og fengu opin skot eða jafnvel layup.  

Nú hafa fáir leikmenn jafn mikla reynslu og þú af leikjum í úrslitakeppninni, hvað er svona sérstakt við þessa leiki?

Þetta er auðvitað tíminn sem úrslitin ráðast, núna getur liðið skrásett söguna, eftir 10 ár þá muna allir eftir þessu ári ef við vinnum titilinn. Fyrir leikmenn þá er þetta allt miklu skemmtilegra, fleira fólk á leikjum og miklu meiri athygli fjölmiðla sem kitlar að sjálfsögðu egóið sem allir íþróttamenn hafa.  

Nú er stórt spurt. Hver eru eftirminnilegustu atvik þín í úrslitakeppninni sem leikmaður? 

Ég tek bara eitt atriði sem er mér virkilega minnistætt. Árið 1991 þegar við mættum inní Keflavík 1-2 undir í seríunni og Keflavík gat tryggt sér titilinn á heimavelli. Andrúmsloftið var ótrúlegt og sigurviljinn sem einkenndi þennan hóp var stórkostlegur. Við tryggðum okkur oddaleikinn með frábærum varnarleik og eftir lokaflautið þá var leikmannahópurinn gjörsamlega vitlaus. Adrenalínið gjörsamlega flaut um klefann á Sunnubrautinni og menn voru klárir í úrslitaleikinn strax sama kvöld, ég og Ísak Tómasson vorum næstum búnir að stytta okkur leið í gegnum vegginn. Þannig var tilfinningin, okkur fannst við geta allt og úrslitaleikurinn var í fullkomnu samræmi við okkar vonir. (Þess má svo geta að UMFN vann oddaleikinn í troðfullri Ljónagryfjunni í einu eftirminnilegasta einvígi í sögu úrslitakeppninnar) 

Að lokum, hverjir verða Íslandsmeistarar 2007?

Áfram Njarðvík 

Tekið af vefsíðu UMFN – www.umfn.is

Fréttir
- Auglýsing -