spot_img
HomeFréttirTeitur: Klárlega besti leikurinn okkar í vetur

Teitur: Klárlega besti leikurinn okkar í vetur

„Við vorum kannski ekki með bakið upp við vegg en við höfum átt mjög erfitt prógramm en þetta gæti vonandi verið einn af þessum leikjum sem er „turning point“ hjá okkur og klárlega besti leikurinn okkar í vetur,“ sagði Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar eftir 85-107 stórsigur Garðbæinga í Stykkishólmi í kvöld.
 
 
„Framan af vorum við óstöðugir, algert jójó og leikirnir gegn Þorlákshöfn og svo Grindavík um daginn eru enn að naga mig en síðustu tvo leiki hafa allir verið að stíga upp og meiri svona liðsbragur á okkur og þá gerast góðir hlutir.“
 
Eitthvað hefur verið fámennt hjá Stjörnunni undanfarið og sjaldnast sem Teitur landar 12 leikmönnum á skýrslu:
 
„Já við erum búnir að vera í bölvuðum vandræðum, höfum stundum verið 7-8 á æfingum og að fylla uppí með háöldruðum mönnum. Meira að segja Jón Kr. Gíslason og Birkir Guðlaugsson hafa verið með okkur á nokkrum æfingum. Ungu strákarnir okkar hafa verið að spila mikið enda sjö af þeim enn í unglinga- og drengjaflokki. Þeir eru stundum að spila þegar æfingar eru hjá meistaraflokknum en við þjöppuðum okkur saman og það er það sem gildir,“ sagði Teitur sem í kvöld færði Garðbæingum sinn stærsta útisigur í Stykkishólmi í deildarleik.
 
„Þegar við náum okkur svona á strik í varnarleiknum þá vinnur maður Snæfell á útivelli, við hittum ágætlega utan af velli og komumst vel að körfunni og með góða nýtingu,“ sagði Teitur og aðspurður um hvort þetta væri vendipunkturinn til batnaðar sagði hann:
 
„Síðasti leikur gaf þessi fyrirheit en þegar lykilmenn eru allir að spila af sinni getu þá gengur þetta. Liðin sem við töpuðum fyrir í byrjun voru bara flest betri en við og lengra komin, betur mönnuð og við tókum þetta ekki mikið inn á okkur en ætlum að nálgast þessi lið hægt og rólega og það birtir til í þá áttina.“
  
Fréttir
- Auglýsing -