spot_img
HomeFréttirTeitur: Hópurinn hefur aldrei verið eins samheldinn

Teitur: Hópurinn hefur aldrei verið eins samheldinn

Ljóst er að Teitur Örlygsson stýrir Stjörnunni áfram á næstu leiktíð í úrvalsdeild karla en Teitur fór með Garðbæinga í undanúrslit Íslandsmótsins þar sem liðið lá 3-1 gegn Íslandsmeisturum Grindavíkur. Teitur á eitt ár eftir af samningi sínum í Garðabæ og segir hópinn aldrei hafa verið eins samheldinn og nú.
,,Við höfum verið að vinna síðustu vikur í okkar málum og erum svo gott sem búnir að tryggja okkur flottan kjarna af leikmönnum. Shouse er líka í pakkanum þannig að grunnurinn eru reyndir leikmenn sem þekkja hvorn annan vel. Við teljum okkur ekki þurfa mikið til að gera tilkall í toppbaráttuna á næsta ári. Áttum reyndar erindi í hana núna en það er önnur saga. Hópurinn hefur aldrei verið eins samheldinn og ákveðinn, Það sem drepur okkur ekki, gerir okkur sterkari," sagði Teitur sem horfir björtum augum á næstu leiktíð.
 
,,Mér líst mjög vel á næsta ár, við mætum vel undirbúnir í haust, notum sumarið vel í að byggja okkur upp líkamlega og vinna í tæknilegum veikleikum. Við erum með aðgang að frábæru fagfólki ásamt topp aðstöðu og getum því gert vel við okkar leikmenn," sagði Teitur en nýverið var samþykkt á formannafundi KKÍ að hafa svokallaða 3 2 reglu í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð.
 
,,Fyrirkomulagið kemur ekki til með að skipta okkur miklu máli frekar en áður. Ég fagna þessu þó og þá séstaklega fyrir hönd leikmanna sem nær allir eru ánægðir og spenntir fyrir þessu. Þetta er þeirra deild, ekki okkar þjálfara, stjórnarmanna eða blaðamanna. Meiri ábyrgð á okkar stráka sem vonandi sem skilar okkur í betri leikmönnum í framtíðinni. Það er samt ekki sjálfgefið og nú er þetta orðið þannig að þeir sem nenna ekki að æfa markvisst yfir sumarið sitja eftir í meðalmennsku."
  
Fréttir
- Auglýsing -