14:35
{mosimage}
(Teitur og Gunnar formaður KKD Stjörnunnar við undirritun samningsins í gær)
Teitur Örlygsson skrifaði í gær undir nýjan tveggja ára samning við Stjörnuna í Garðabæ. Teitur tók við liðinu á miðri yfirstandandi leiktíð og vann til bikarmeistaratitils með Garðbæingum. Það var fyrsti stórtitill sem Garðbæingar vinna í efstu deild körfuboltans. Teitur sagði í samtali við Karfan.is að nú væri tími kominn fyrir Stjörnuna til að stíga næsta skref í að vera það lið sem allir þurfi að taka alvarlega.
,,Við ætlum að fylgja þessu ári eftir og ég og stjórnin erum sammála um að það sé kominn tími til fyrir Stjörnuna til að stíga næsta skref. Við tókum stórt skref á þessari leiktíð og unnum bikarmeistaratitilinn nokkuð óvænt sem var alveg frábært. Núna langar okkur til að gera enn betur og ýta okkur aðeins ofar í töfluna og vera stöðugara lið sem allir þurfa að taka alvarlega," sagði Teitur en hann stýrði liðinu inn í 8-liða úrslit Iceland Express deildarinnar og var það enn eitt metið í Garðabænum. Verða þau fleiri metin og sögubrotin sem bætast við í Garðabæ á næstu leiktíð?
,,Ég vil aldrei fara að plana mars eða apríl á næsta ári heldur hlakkar mig alveg ofboðslega mikið til þegar fyrsti leikurinn byrjar næsta haust. Það verða líklega einhverjar breytingar á liðinu. Ólafur J. Sigurðsson er líklegast að flytja til Danmerkur en annars ætlum við að reyna að halda óbreyttu liði og jafnvel styrkja okkur. Hver veit svo nema við reynum að dýpka á hópnum," sagði Teitur en sér hann fram á að leikmenn úr yngri flokkum fari að láta að sér kveða?
,,Það er nokkuð langt í það ennþá en um leið og einhver hefð myndast og liðið fer að vinna fleiri leiki þá hefst þessi heilbrigða og góða endurnýjun eins og við viljum hafa hana," sagði Teitur sem er margreyndur leikmaður en sér hann það fyrir sér að hann geti endst lengi í þjálfuninn?
,,Ég veit ekkert um það en þetta er ofboðslega skemmtilegt, eins og staðan er hjá mér í dag þá bara hugsar maður um næsta leik," sagði Teitur en formaður félagsins Gunnar Kristinn Sigurðsson var að vonum kátur með að njóta áfram starfskrafta Teits.
,,Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi og við erum í því að tryggja hópinn okkar þessa dagana og vonandi klárast það á næstu dögum. Eins og staðan er núna höfum við ekki klárað okkar mál við Justin Shouse en það er mikill vilji fyrir því að hafa hann áfram og svo verður Jovan Zdravevski áfram í okkar herbúðum," sagði Gunnar sem oft hefur séð svartari tímabil en það sem rennur nú brátt sitt skeið.
,,Maður er búinn að ganga í gegnum hina ýmsu hluti í þessu, vera í ströggli í 1. deild með fámenna stjórn og takmarkað fjármagn yfir í það að komast í úrvalsdeild, verða bikarmeistari og komast inn í úrslitakeppnina. Þetta er svart og hvítt sem maður hefur farið í gegnum svo það er óhætt að segja að þetta ár hafi verið uppskeruár," sagði Gunnar sem var ánægður með árangurinn af öllu sínu puði og annarra í stjórn deildarinnar síðustu ár eins og hann orðaði það.
Er nýtt afl í íslenskum körfuknattleiks að stíga fram?
,,Já það held ég, menn eru farnir að taka okkur alvarlega núna og við höfum gott yngriflokka starf þó enn sé langt í að þeir láti að sér kveða í meistaraflokk. Þetta er að þéttast hjá okkur, nokkrir leikmenn úr 11. og drengjaflokki eru t.d. að detta inn í meistaraflokkshópinn og þannig verðum við afl og munum á næstu árum skapa okkur nafn í körfuboltanum,“ sagði Gunnar sem hefur stundum hugsað um það að hætta þegar stormurinn var sem mestur í kringum KKD Stjörnunnar en nú horfir hann fram á bjartari tíma enda glæsilegasta tímabil Stjörnunnar í sögu körfuboltans í Garðabæ að baki.



