spot_img
HomeFréttirTapaðir boltar dýrir fyrir U16 stúlkna

Tapaðir boltar dýrir fyrir U16 stúlkna

U16 kvennalandslið Íslands lék gegn Finnlandi á Norðurlandamótinu í dag. Finnska liðið er gríðarlega sterkt og tókst íslenska liðinu ekki að svara þeirra leik í dag. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins:

 

Finnska liðið pressaði hátt á völlinn snemma í leiknum og þrátt fyrir að íslenska liðið hafi verið undir það búið var það ekki tilbúið til að fylgja því eftir á vellinum. Íslenska liðið gerði þó vel að koma aftur inní leikinn og var staðan 4-6 í fyrsta leikhluta. Eftir það gekk Finnland á lagið. 

 

Finnska liðið barðist gríðarlega og eru líkamlega sterkari en Ísland. Þær fengu margar auðveldar körfur þar sem íslenska liðið tapaði full mörgum boltum framarlega á vellinum. Eftir fylgdi að sjálfstraustið minnkaði og vonleysið varð mikið á kafla hjá Íslandi. Staðan í hálfleik 18-47 fyrir Finnlandi.

 

Það var aftur á móti ljóst snemma í seinni hálfleik að íslensku leikmennirnir ætluðu að skilja allt eftir á gólfinu og ganga stoltar frá borði. Leikmenn fengu meiri trú á eigin hæfileikum og tókst að keyra fínar sóknar og vörðust ágætlega þegar þeim tókst að stilla upp í stað þess að fá á sig auðveldar körfur úr hraðaupphlaupum. 

 

Holan var aftur á móti orðin of djúp og íslenska liðið gat ekki komið til baka. Lokastaðan 35-85 gegn ógnarsterku finnsku liði. 

 

Leikmenn leiksins:

 

Ásta Júlía Grímsdóttir og Ólöf Rún Óladóttir voru sterkustu menn Íslands í dag. Voru óhræddar við að keyra að körfunni og spila gegn þessu sterka liði. Þær voru saman með 19 af 35 stigum Íslands í leiknum og liðinu gekk best með þær inná. 

 

Kjarninn: 

 

Líklega var Ísland að spila við besta liðið á þessu móti og jafnvel er bara fínt að klára það af strax í fyrsta leik. Lið var vel undirbúið undir að mæta pressu finnska liðsins en tókst ekki að framkvæma það á vellinum. Finnland var einfaldlega sterkara líkamlega og meira undirbúið í bardaga. Körfuboltahæfileikar Íslands eru hinsvegar til staðar þegar þær losuðu pressuna og tókst að stilla upp í sókn og vörn. 

 

Það er nóg eftir á mótinu og nú á liðið að vera búið að fá forsmekkinn af baráttunni sem er á mótinu. Ísland mætir Noregi á morgun og eiga hellings möguleika gegn þeim. 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn leiksins

 

Viðtöl eftir leik: 

 

 

Umfjöllun, myndir og viðtöl: Ólafur Þór Jónsson

 

Fréttir
- Auglýsing -