spot_img
HomeFréttirTap og sigur í síðustu leikjum riðlakeppninnar

Tap og sigur í síðustu leikjum riðlakeppninnar

{mosimage}

Karlaliðin unnu og töpuðu síðustu leikjum íslensku liðanna í riðlakeppni Norðurlandamóts unglinga sem lauk í Stokkhólmi. Framundan er úrslitadagur mótsins á morgun þar sem 18 ára lið karla og kvenna spila til úrslita og 16 ára lið karla leikur um bronsið. 18 ára lið karla tapaði sínum fyrsta leik á mótinu, 60-71, fyrir Finnum í dag en 16 ára liðið vann annan leikinn í röð þegar liðið vann 67-62 sigur á Norðmönnum en liðið mætast síðan aftur í bronsleiknum á morgun.

18 ára lið karla hélt uppi vanabundnum hætti sínum að byrja leikina illa þegar liðið tapaði fyrir Finnum, 60-71, í lokaleiknum sínum í riðlinum. Liðið var þegar búið að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum fyrir leikinn og Benedikt Guðmundsson dreifði spilatímanum því meira á sína menn til að halda þeim ferskum fyrir morgundaginn þegar liðið mætir heimamönnum Svía í úrslitaleiknum.

Slæmur fyrsti leikhluti og slæmur endakafli átti mestan þátt í því að 18 ára karlaliðið tapaði sínum fyrsta leik á mótinu. Finnar unnu fyrstu 7 mínúturnar og þær 4 síðustu með alls 27 stiga mun, 36-9, og það dugði ekki íslenska liðinu að vinna hinar 29 mínútur leiksins 51-35.

Finnar komust í 0-5, 2-8 og 9-23 (eftir 7:35 mínútur) og leiddu með 11 stigum, 15-26, eftir 1. leikhluta. Finnar héldu forskotinu í 2. leikhluta og höfðu 8 stiga forskot í hálfleik, 31-39. Hálfleiksræða Benedikts þjálfara hristi vel upp í liðinu sem skoraði 9 fyrstu stig seinni hálfleiks og var komið yfir, 40-39, eftir aðeins tæpar 4 mínútur. Eftir það skiptustu liðin á að hafa forustuna allt þar til 4 mínútur og 20 sekúndur voru eftir en þá skoraði íslenska liðið sín síðustu stig, þegar Hörður Hreiðarsson kom Íslandi í 60-58. Finnar skoruðu 13 síðustu stig leiksins og unnu 60-71.

Lykilmenn íslenska liðsins, Hörður Axel Vilhjálmsson, Brynjar Þór Björnsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson komu ekkert inn á í síðasta leikhlutanum og spiluðu allir í 23 mínútur eða minna í leiknum.

18 ára karlar
Ísland-Finnland 60-71 (15-26, 31-39, 50-51)
Stig Íslands: Brynjar Þór Björnsson 14, Hörður Axel Vilhjálmsson 11 (8 fráköst, 5 stoðsendingar), Hörður Helgi Hreiðarsson 9, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8 (5 varin), Hafþór Björnsson 6 (6 fráköst, 15 mín.), Þröstur Jóhannsson 5 (5 fráköst), Páll Kristinsson 2, Rúnar Ingi Erlingsson 2 (8 fráköst, 4 stoðsendingar), Hjörtur Hrafn Einarsson 2.

16 ára lið karla er komið á sigurbraut eftir að liðið vann Norðmenn, 67-62, í lokaleik sínum í riðlakeppninni en liðin mætast aftur í bronsleiknum á morgun. íslensku strákarnir unnu upp 11 stiga forskot Dana í hálfleik, 27-38, og unnu sinna annan leik í röð en liðið vann Danmörku daginn áður.

Danir höfðu góð tök á leiknum í upphafi, voru með fimm stiga forskot, 17-22, eftir fyrsta leikhlutann og náðu mest 13 stiga forskoti, 23-36, þegar 4 mínútur voru eftir af hálfleiknum. Íslensku strákarnir minnkuðu muninn í 11 stig fyrir hálfleik, 27-38, og skoruðu síðan 10 fyrstu stig seinni hálfleiks og munurinn var þá strax kominn niður í eitt stig, 37-38, eftir aðeins fjögurra mínútna leik. íslenska liðið var yfir eftir 3. leikhluta, 51-49, og hafði síðan frumkvæðið allan síaðsta leikhlutann en hann vannst 16-13 og leikurinn því með fimm stigum, 67-62.

Örn Sigurðarson var atkvæðamikill í leiknum, nýtti meðal annars öll átta tveggja stiga skotin sín og endaði með 19 stig en annars var barátta og liðsheild íslenska liðsins sem réði úrslitunum í þessum leik og gerði strákunum kleift að vinna upp þetta góða forskot Norðmanna. Það hlýtur að vera stefnan þegar liðin mætast aftur á morgun að missa Norðmenn ekki svona langt frá sér því liðið hefur alla burði til þess að tryggja sér bronsið.

16 ára karlar
Ísland-Noregur 67-72 (17-22, 27-38, 51-49)
Stig Íslands: Örn Sigurðarson 19 (6 fráköst), Snorri Páll Sigurðsson 14 (6 stoðsendingar), Baldur Ragnarsson 8 (4 stoðsendingar), Þorgrímur Björnsson 8, Pétur Jakobsson 4, Arnþór Guðmundsson 4, Sigmar Björnsson 4, Víkingur Ólafsson 3, Hjörtur Halldórsson 2, Sigurður Ólafsson 1.

Frétt og mynd af www.kki.is

Myndatexti: Þorgrímur Guðni Björnsson, Kormáki, í baráttunni með U 16 liðinu

Fréttir
- Auglýsing -