Ísland lauk keppni á æfingamóti fyrir evrópumót U20 landsliða sem hefst á næstu dögum. Íslenska liðið hefur leikið á gríðarlega sterku æfingamóti á Grikklandi síðustu vikuna. Í dag voru andstæðingarnir Ítalía sem endaði í fimmta sæti á evrópumótinu fyrir ári síðan.
Leikurinn var nokkuð jafn og lítið sem bar á milli liðanna í fyrri hálfleik en Ísland leiddi að honum loknum. Slakur þriðji leikhluti kom ítölum yfir. Ísland kom til baka í þeim síðasta en niðurstaðan var eins stigs tap gegn Ítalíu. Ísland fékk tvö tækifæri til að jafna eða komast yfir í lokasókninni en Tryggvi Snær Hlinason fékk tvö víti í blálokin. Annað vítið vildi ekki ofan í og Ítalía fagnaði sigri.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var atkvæðamestur hjá Íslandi með 21 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Tryggvi Snær Hlinason var einnig sterkur með 9 stig, 15 fráköst og 5 varin skot. Skotnýting Íslands var hinsvegar ekki nægilega góð og má segja að skilji liðin að í dag.
Niðurstaðan af æfingamótinu eru þrjú töp en þar af tvö mjög naum töp gegn gríðarlega sterkum þjóðum. Heimamenn í Grikklandi líta út fyrir að vera sigurstranglegir á evrópumótinu en liðið tapaði ekki leik á mótinu og vann Ísland sannfærandi.
Evrópumótið sjálft hefst á laugardaginn er Ísland mætir Frakklandi á Krít í Grikklandi. Ísland er einnig með Svartfjallalandi og Tyrklandi í riðli og því ljóst að spennandi verkefni er framundan fyrir Finn Frey Stefánsson þjálfara liðsins og liðið allt. Karfan.is mun fjalla ítarlega um mótið er það hefst næstkomandi laugardag.
Διεθν?ς Τουρνου? U20: @kkikarfa –@Italbasket 66-67 (τελικ?) Σε λ?γο το τζ?μπολ του αγ?να Ελλ?δα-Ισπαν?α #FIBAU20Europe @fiba pic.twitter.com/Db1BpnnM1w
— Hellenic Basketball (@HellenicBF) July 12, 2017
Mynd / Gríska körfuknattleikssambandið