spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Tap í Tyrklandi - Sigur og tap niðurstaða fyrsta glugga undankeppni EuroBasket...

Tap í Tyrklandi – Sigur og tap niðurstaða fyrsta glugga undankeppni EuroBasket 2025

Tyrkland hafði betur gegn Íslandi í Istanbúl í öðrum leik liðanna í undankeppni EuroBasket 2025, 76-75. Eftir leikinn eru liðin jöfn að sigrum, með eitt hvor, en í fyrri leik þessa fyrsta glugga lagði Ísland lið Ungverjalands og Tyrkland tapaði á Ítalíu.

Fyrir leik

Í fyrri leik gluggans á fimmtudag vann Ísland sinn leik heima gegn Ungverjalandi, 90-85, á meðan að Tyrkland laut í lægra haldi á Ítalíu, 70-77. Því nokkuð ljóst að tyrkneska liðið myndi mæta dýrvitlaust til leiks í kvöld og selja sig dýrt fyrir framan þá 15208 stuðnigsmenn sem keypt höfðu miða á leikinn. Atkvæðamestur í tapinu gegn Ítalíu var hinn ungi Tarik Biberovic leikmaður Fenerbahçe, en hann setti 28 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í sínum fyrsta leik fyrir A landslið Tyrklands.

Frekar stutt er síðan Ísland mætti Tyrklandi í þessari sömu höll í Istanbúl, en í ágúst á síðasta ári voru liðin saman í riðil í undankeppni Ólympíuleika. Þá hafði tyrkneska liðið nokkuð öruggan 25 stiga sigur gegn Íslandi, þar sem Orri Gunnarsson var bestur í íslenska liðinu með 20 stig á 21 mínútu spilaðri.

Tyrkneska liðið sem mætti til leiks í dag var þó nokkuð ólíkt því sem Ísland mætti í ágúst, en í það vantaði þeirra allra besta leikmann Alperen Sengun, sem leikur fyrir Houston Rockets í NBA deildinni. Lið dagsins hjá Tyrklandi þó gífurlega sterkt, þar sem flestir leikmanna þeirra leika í sterkri efstu deild í Tyrklandi og sterkustu deild Evrópu, EuroLeague.

Byrjunarlið

Tryggvi Snær Hlinason, Martin Hermannsson, Elvar Már Friðriksson, Kristinn Pálsson og Jón Axel Guðmundsson.

Gangur leiks

Ljóst var frá fyrstu mínútu að tyrkneska liðið ætlaði að vera gríðarlega fast fyrir. Bæði pressuðu þeir boltann allan völlinn og þá báru nokkrar villur þeirra á upphafsmínútunum þess merki. Leikurinn er þó í miklu jafnvægi í upphafi og skiptast liðin í nokkur skipti á forystunni í fyrsta fjórðung, en þegar hann er á enda er staðan jöfn 16-16. Í upphafi annars leikhlutans grefur íslenska liðið sér sex stiga holu, 30-24, en eru snöggir að ná áttum og hald í við heimamenn til loka fyrri hálfleiksins, 35-30.

Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Martin Hermannsson með 9 og Tryggvi Snær Hlinason með 8 stig.

Íslenska liðið fer nokkuð illa að ráði sínu í upphafi seinni hálfleiksins, ná lítið að stoppa varnalega og missa heimamenn 11 stigum framúr, 50-39. Ísland gerir þó ágætlega að loka fjórðungnum, þar sem aðeins munar 7 stigum fyrir lokaleikhlutann, 54-47. Í þeim fjórða má segja að Íslenska liðið hafi gefið sér ágætis möguleika á að stela sigrinum með því að halda leiknum tiltölulega jöfnum fram á lokamínúturnar, 71-70, þegar mínúta er til leiksloka. Á lokasekúndunum nær Ísland svo að komast yfir með körfu frá Jóni Axeli Guðmundssyni, 74-75. Með þrjár sekúndur eftir nær Tarik Biberovic að setja niður ótrúlega flautukörfu og Tyrkland vinnur leikinn með minnsta mun mögulegum, 76-75.

Atkvæðamestir

Bestir í liði Íslands í dag voru Tryggvi Snær Hlinason með 12 stig, 10 fráköst, 3 varin skot og Martin Hermannsson með 15 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar.

Kjarninn

Sem áður þarf Ísland að vera eitt af þremur efstu liðunum í þessum fjögurra liða riðil og það er ólíklegt að tapið í dag hafi nein svakaleg áhrif á að það takist þökk sé heimasigrinum gegn Ungverjalandi á fimmtudaginn. Íslenska liðið hefur þó sýnt það á síðustu árum að þeir geta átt í fullum tygjum við sterkar þjóðir, þó það hafi ekki tekist í dag. Vonin um að liðið nái að taka annan hvorn leikinn gegn Ítalíu í nóvember eða heimaleikinn gegn Tyrklandi í febrúar á næsta ári er enn til staðar, en takist það ekki gæti verið nóg fyrir liðið að ná í úrslit á móti liði Ungverjalands í næst síðasta leik undankeppninnar í febrúar 2025.

Hvað svo?

Næsti gluggi verður í nóvember á þessu ári. Þá mun Ísland leika heima og heiman gegn Ítalíu, þar sem byrjað verður á leik í Laugardalshöllinni 22. nóvember og svo leikið mánudag 25. nóvember úti á Ítalíu.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -