spot_img
HomeFréttirTaKesha kvaddi með stæl

TaKesha kvaddi með stæl

22:21 

{mosimage}

Keflavíkurkonur eru komnar í úrslit Lýsingarbikarsins í körfuknattleik eftir 104-80 sigur gegn Hamri í Sláturhúsinu í kvöld. Lið Hamars kom nokkuð á óvart í kvöld og lét Keflavík hafa þónokkuð fyrir sigri sínum. Það var ekki fyrr en um miðjan síðari hálfleik að Keflavík tók að stinga af.

 

Bryndís Guðmundsdóttir gerði fyrstu stig leiksins fyrir Keflavík og við það sama voru heimakonur mættar með pressuvörn og á skömmum tíma var staðan orðin 19-6 Keflavík í vil. Í þessari stöðu hugsaði undirritaður með sér: „Þetta er búið.“ Annað kom þó á daginn og gestirnir hertu róðurinn og náðu að minnka muninn í 29-21 þegar fyrsta leikhluta lauk. Latreece Bagley fór á kostum í upphafsleikhlutanum fyrir Hamar og virtist skora að vild og sömuleiðis fór pressa Keflavíkur að leka sem gatasigti.

 

Svava Stefánsdóttir tók góða rispu fyrir Keflavík í öðrum leikhluta er hún gerði þrjár þriggja stiga körfur með skömmu millibili en það beit ekki á Hamar og svaraði Sóley Guðgeirsdóttir með þremur þriggja stiga körfum til baka fyrir Hamar og tveimur í röð sem minnkaði muninn í 46-37 þegar Keflavík virtist á ný vera að síga fram úr. Liðin gengu svo til hálfleiks í stöðunni 57-44 og var Bagley þá með 19 stig í liði Hamars en Bryndís hafði gert 16 fyrir Keflavík.

 

Eins og fyrr greinir þá fór Keflavík að síga fram úr um miðbik þriðja leikhluta og TaKesha Watson fór í gang og stal hverjum boltanum á fætur öðrum. Watson lauk leik með 25 stig og 9 stolna bolta. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 82-65 Keflavík í vil og þær héldu sínu striki í fjórða leikhluta og kláruðu leikinn með 24 stiga sigri, 104-80.

{mosimage}

 

Latreece Bagley var atkvæðamest í liði Hamars með 22 stig og 19 fráköst en liðsfélagar þurftu meira frá henni í síðari hálfleik þar sem Bagley gerði aðeins 3 stig. Hjá Keflavík var TaKesha Watson með 25 stig, Bryndís Guðmundsdóttir með 18 og Svava Stefánsdóttir gerði 17 stig.

 

Leikurinn í kvöld var síðasti leikur Watson með Keflavík eins og fram hefur komið en hún sagði í stuttu spjalli við blaðamann Víkurfrétta að henni fyndist mjög miður að vera á heimleið því hún nyti sín vel í herbúðum Keflavíkur. Leitað er að staðgengli Watson sem allra fyrst en víst er að Keflavík þarf á öðrum eins leikmanni og Watson að halda ef þær ætla sér að vera áfram í toppbaráttunni.

 

[email protected]

 

Frétt og myndir af www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -