spot_img
HomeFréttirTaka tvö í DHL- Snæfell hafði betur í þetta skiptið

Taka tvö í DHL- Snæfell hafði betur í þetta skiptið

 

Snæfell tókst það sem margir töldu ekki hægt þegar þeir hefndu fyrir bikarleikinn á dögunum og stálu 2 stigum í DHL höllinni í kvöld.  KR leiddi lengi framan af leik og höfðu mest 14 stiga forskot á tímabili.  Snæfell var þó aldrei langt undan og komu sér inní leikinn með góðum kafla í upphafi þriðja leikhluta og svo aftur í upphafi fjórða leikhluta þar sem þeir náðu sínu stærsta forskoti í leiknum, 6 stig.  Snæfell hafði svo betur á lokakaflanum þar sem segja má að lykilmenn KR hafi hreinlega brugðist en þeir urðu sekir um klaufaleg mistök á lokakaflanum.  Snæfell vann því með einu stigi, 93-94, og koma sér vel fyrir í miðjumoði deildarinnar með 14 stig, aðeins tveimur stigum frá KR sem sitja í öðru sæti ásamt þremur öðrum liðum með 16 stig.  

Stigahæstur í liði Snæfells var Quincy Hankins-Cole með 27 stig og 7 fráköst en næstir voru það Jón Ólafur Jónsson með 22 stig og 9 fráköst og Marquis Hall með 17 stig og 5 stoðsendingar.  Í liði KR var Joshua Brown stigahæstur með 23 stig og 7 fráköst en næstir voru það Robert Ferguson með 17 stig og 14 fráköst og Finnur Atli Magnússon með 16 stig og 9 fráköst.  

 

KR byrjaði leikinn ögn betur og með flottum varnarleik komust þeir i 6-2 eftir þrjár mínútur.  Snæfellingar voru að taka erfið skot sem féllu ekki með þeim.  Þegar Snæfell fann opna manninn fyrir utan og setti niður 6 stig í röð komust þeir yfir í fyrsta sinn, 10-12.  Liðin skiptust á stigum næstu mínúturnar og þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum leiddi Snæfell, 14-16.  KR átti góðan kafla á lokamínútunum og setti 8 stig gegn tveimur stigum, 22-18.  Snæfell átti hins vegar lokaorðið þegar Hafþór Ingi Gunnarsson setti flautukörfu og minnkaði muninn í 2 stig, 22-20. 

 

KR byrjaði annan leikhluta af krafti og þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum höfðu þeir náð forskotinu upp í 7 stig, 32-25.  Stigin dreifðust vel hjá heimamönnum en þá höfðu 8 leikmenn skorað fyrir KR.  Á meðan opin skot voru að geiga hjá Snæfell fór allt ofaní hjá heimamönnum, Ingi Þór fékk nóg og tók leikhlé fyrir Snæfell þegar leikhlutinn var hálfnaður, 42-29.   Snæfell tókst að rétta sinn hlut þegar leið á leikhlutan og þegar 3 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik munaði 8 stigum, 44-36.  KR virtist þó alltaf finna auðveldu leiðina að körfunni á meðan sóknarleikur Snæfells átti í mun meiri erfiðleikum með að finna glufur á varnarleik KR. Snæfell tókst því ekki að minnka muninn meira en svo í fyrri hálfleik og KR leiddi með 11 stigum, 53-42. 

 

Stigahæstur í hálfleik fyrir KR var Robert Ferguson með 13 stig,Dejan Sencanski, Finnur Atli Magnússon og Joshua Brown allir með 9 stig. Hjá Snæfell var troðslumaskínan Quincy Hankins-Cole stigahæstur með 15 stig en næstir voru Hafþór Iingi Gunnarsson með 7 stig og Jón Ólafur Jónsson með 6 stig.  

 

Snæfell vann sig hægt og rólega inní leikinn í þriðja leikhluta.  Sóknarleikur gestana fór á blússandi siglingu og þegar þriðji leikhlut var rétt rúmlega hálfnaður höfðu þeir skorað 14 stig gegn 8 stigum KR.  Hrafn Kristjánsson tók þá leikhlé fyrir KR, 61-56.  Varnarleikur Snæfells í þriðja leikhluta var til fyrirmyndar og það leið ekki á löngu þar til þeir höfðu jafnað leikinn, 64-64, þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum.  Ingi Þór Steinþórsson tók leikhlé fyrir Snæfell í næstu sókn.  Robert Ferguson fékk mikið högg á hnéið stuttu seinna og þurfti að yfirgefa völlinn til þess að fá aðhlynningu frá sjúkraþjálfara liðsins en hann kom þó aftur inná í byrjun fjórða leikhluta.  Marquis Hall fékk sína fjórðu villu á lokasekúndum þriðja leikhluta og í kjölfarið kom Hreggviður Magnússon KR yfir aftur af vítalínunni, 71-70, og þannig stóðu tölur þegar einn leikhluti var eftir.  

 

Snæfell byrjaði fjórða leikhluta mjög vel og fengu nokkur galopin tækifæri.  Þar á meðal var glæsileg troðsla frá Quincy Hankins-Cole sem vakti mikla lukku viðstaddra.  Þegar tæplega þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta höfðu Snæfellingar náð 6 stiga forskoti á KR, 73-79.  Hrafn Kristjánsson tók því leikhlé stuttu seinna en þá höfðu Snæfell ennþá 6 stiga forskot, 75-81.  Það var eins og allt í einu hefði verið kveikt á ofnunum í DHL höllinni þegar fjórði leikhlut var hálfnaður.  Martin Hermansson setti glæsilegan þrist með Hankins-Cole í andlitinu og stuðningsmenn KR tóku við sér.  Liðin skiptust á að setja hverja þriggja stiga körfuna á fætur annari og spennan í húsinu magnaðist með hverju skotinu.  Jón Ólafur Jónsson fékk sína fimmtu villu stuttu seinna og í sömu andrá fór Quincy Hankins-Cole útaf vegna meiðsla í fæti.  Þegar þrjár mínútur voru eftir höfðu KR-ingar minnkað muninn niður í 2 stig, 87-89.  Það var svo viðeigandi að Joshua Brown kom KR yfir af vítalínunni þegar tvær mínútur voru eftir, 90-89.   Quincy Hankins-Cole kom þá aftur inná og kom Snæfell aftur yfir með hörku troði, 90-91. Þegar 50 sekúndur voru eftir tók Hrafn Kristjánsson leikhlé fyrir KR en þá höfðu KR hent boltanum frá sér eftir fremur klaufalega sókn.  Snæfell svaraði í sömu mynt og henti líka frá sér boltanum í næstu sókn.  Marquis Hall kórónaði svo góðan leik sinn í leiknum með því að stela boltanum af Joshua Brown þegar 11 sekúndur voru eftir af leiknum og þar með tryggja Snæfell sigurinn.  KR braut fljótt og sendi Ólaf Torfason á línuna sem nýtti annað vítið,90-94.  Hreggviður Magnússon átti svo seinasta skot leiksins sem var langt fyrir aftan miðju og ótrúlegt en satt þá söng það í netinu á sömu sekúndu og flautan gall.  Eins stig sigur Snæfells því staðreynd en minna mátti ekki muna, 93-94.

Umfjöllun: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -