spot_img
HomeFréttirTaflið snérist við í kvöld

Taflið snérist við í kvöld

Það var allt annar bragur á Keflavíkurkonum í kvöld þegar þær mættu aftur til leiks í Ljónagryfjuna eftir að hafa tapað bikarleiknum á mánudaginn. Keflavík sýndi sitt rétta andlit í leiknum og sýndu hvers megnugar þær eru. Keflavík sigraði að lokum eftir frábæran leik með 68 stigum gegn 62. Jaleesa Butler fór mikinn fyrir Keflavík og endaði leikinn með 35 stig og 18 fráköst. Hjá Njarðvík var Lele Hardy stigahæst með 25 stig og 15 fráköst.
Keflavík byrjaði leikinn betur og komst í 4-11 um miðjan fyrsta leikhluta. Þá tók Sverrir Þór Sverrisson leikhlé til að ræða hlutina við sitt lið. Hann virtist hafa vakið liðið sitt heldur upp því eftir það taka Njarðvík 18-0 ,,run“ og komast í 22-11 áður en Keflavík nær að svara. Á þessum tíma er Njarðvík að spila frábæra vörn og ekkert að gerast hjá Keflavík. En þær ná aðeins að rétta úr kútnum áður en leikhlutinn rennur út og minnka í 22-16 áður en Hardy skellir einum „buzzer“ þrist rétt áður en leikklukkan flautar leikhlutann af. Leikhlutinn endar þar með 25-16 Njarðvík í vil þar sem Shanea Baker-Brice er komin með 12 stig fyrir þær grænu og Pálína Gunnlaugsdóttir með 8 fyrir Keflavík.
 
Í upphafi annars leikhluta hélt Njarðvík áfram að spila vel. Barátta þeirra var að koma þeim langt þar sem þær voru að taka hvert frákastið eftir öðru á þessum hluta leiks og stela boltum þar á milli. Þær komast í 30-18 eftir rúman tveggja mínútna leik, en þá vakna Keflavíkurstelpurnar all svakalega og fara að sækja að Njarðvík. Vörn Keflavíkur fer að smella saman og ganga strax á lagið þegar Njarðvík fór að missa dampinn. Þegar flautað er til hálfleiks er staðan 38-33 fyrir Njarðvík þar sem að Hardy setti annan „buzzer“ þrist. Hjá Njarðvík voru Baker-Brice og Hardy báðar með 12 stig en hjá Keflavík var J. Butler komin með 15 stig og Pálína með 8.
 
Mikil barátta beggja liða einkenndi upphaf þriðja leikhlutans þar sem hvorugt liðið ætlaði að gefa eftir. Jafnt var á tölum fyrstu mínúturnar en um miðjan leikhlutann kemst Keflavík yfir, í fyrsta skipti síðan í upphafi leiks, 40-41 og komast síðan í 40-45. Keflavík var að spila frábærlega í leikhlutanum á meðan ekkert var að gerast hjá Njarðvík. Staðan var orðin 45-53 fyrir Keflavík fyrir síðasta leikhlutann, en þær unnu leikhlutann 7-20. J. Butler var að spila frábærlega á báðum endum vallarins og var komin með 27 stig fyrir Keflavík og Pálína var komin með 12 stig. Hjá Njarðvík voru Baker-Brice, 15 stig, og Hardy, 16 stig, allt í öllu.
 
Njarðvík byrjaði leikhlutann ágætlega þar sem þær voru að sækja mikið að körfu Keflavíkinga og koma sér þannig á vítalínuna. Svæðisvörn Njarðvíkur var þó ekki að virka eins vel og í bikarleiknum því að í kvöld var Keflavík að finna glufur allstaðar á vellinum og nýttu þær. Vörn Keflavíkur hélt áfram að vera traust og gaf þeim góðan sigur í kvöld. Vörn þeirra var þétt og gáfust aldrei upp. Eins góð og vörn Njarðvíkur var í bikarleiknum þá gekk hún ekki upp í kvöld og má segja að það hafi verið þeirra helsti veikleiki í kvöld. Leikurinn fór eins og áður segir 62-68 fyrir Keflavík eftir góðan leik og greinilegt að af þessum viðureignum á enginn að missa ef viðkomandi hefur gaman af skemmtilegum körfuboltaleikjum.
 
Hjá Keflavík var J. Butler að spila frábærlega og var þeirra manna best í kvöld. Hún sallaði niður 35 stigum, 18 fráköstum og 5 vörðum skotum. Pálína var einnig að spila mjög vel og spilaði frábæra vörn í kvöld eins og henni einni er lagið. Endaði leikinn með 12 stig, 5 stolna, og 4 stoðsendingar.
 
Hjá Njarðvík voru Baker-Brice og Hardy allt í öllu á báðum enda vallarins. Hardy endaði leikinn með 25 stig, 15 fráköst og 6 stolna. Baker Brice var síðan með 20 stig og 11 fráköst.
 
 
 
Staðan í deildinni:
Nr. Lið U/T Stig
1. Keflavík 15/3 30
2. Njarðvík 13/5 26
3. Haukar 11/7 22
4. KR 11/7 22
5. Snæfell 8/10 16
6. Valur 6/12 12
7. Fjölnir 5/13 10
8. Hamar 3/15 6
  
Fréttir
- Auglýsing -