Bylgja Sverrisdóttir þjálfari í yngri flokkum hjá Njarðvík segist vart muna annan eins fjölda í minniboltanum síðustu 14 árin sem hún hefur þjálfað. Mikil fjölgun hefur orðið hjá yngstu flokkunum hjá þessari rótgrónu körfuknattleiksdeild en hana má að einhverju leyti tengja við nokkra fólksfjölgun í Reykjanesbæ síðustu ár.
„Það er svo gaman þegar maður sér vinnuna skila sér í fjölgun iðkenda og þetta er virkilega góður árangur að ná inn svona stórum og flottum hópi af stelpum. Vitaskuld kostar þetta fleiri þjálfara og við búum nú orðið við það að íþróttahúsið er orðið of lítið,“ sagði Bylgja við Karfan.is en hún og Agnar Mar Gunnarsson sem einnig stýrir meistaraflokki Njarðvíkurkvenna eru í forsvari fyrir yngstu flokka félagsins.
„Ég tel að við séum komin hátt í 200 iðkendur bara í minniboltanum öllum og ég gæti hreinlega trúað því að þetta væri met,“ sagði Agnar Mar.
Ljónagryfjan hefur jafnan verið þekkt sem eitt af minni húsunum í úrvalsdeild karla í körfubolta og flokkar félagsins æfa einnig í Akurskóla í Innri-Njarðvík. Þessi mikla fjölgun hefur það í för með sér að mögulega gæti deildin þurft á fjölbreyttari úrræðum að halda á næstunni hvað varðar æfingaaðstöðu.
Mynd/ úr einkasafni – Frá minniboltaæfingu hjá Bylgju Sverrisdóttur.