Houston Rockets hafa fengið til sín bakvörðinn Kevin Martin frá Sacramento Kings í skiptum fyrir Tracy McGrady. Houston fá þar góðan sóknarmann sem þeir þurfa sannarlega á að halda, en losna við McGrady, launahæsta mann deildarinnar, sem var frá vegna meiðsla og svo settur út úr liðinu þegar hann sneri aftur í vetur.
Þessi skipti hafa ekki verið staðfest og ekki er útilokað að NY Knicks komi að skiptunum og taki McGrady áður en yfir lýkur. Í heildina láta Kings frá sér Martin, Sergio Rodriguez, Hilton Armstrong og Kenny Thomas og fá í staðinn McGrady, baráttujaxlinn Carl Landry og Joey Dorsey.
Þá er ekki loku fyrir það skotið að McGrady fái sig lausan frá Sacramento og gangi til liðs við eitt af toppliðum deildarinnar.
Martin hefur verið hjá Sacramento allan sinn feril og verið þeirra stærsta stjarna síðustu ár, en hefur um leið verið mikið meiddur. Martin fékk fréttirnar í hálfleik viðureignar Kings og Golden State.
Ein önnur leikmannaskipti hafa verið staðfest en Knicks skiptu Darko Milicic, ásamt ótiltekinni peningaupphæð, til Minnesota fyrir framherjann Brian Cardinal.
Þá er talið líklegt að Chicago Bulls og Milwaukee Bucks muni eiga í skiptum þar sem John Salmons fer til Bucks í stað Francisco Elson og Kurt Thomas.
Fleiri frétta er að vænta af leikmannaskiptum enda lokar skiptaglugganum í dag þar sem m.a. er rætt um að troðslumeistarinn smávaxni Nate Robinson fari til Boston Celtics í skiptum fyrir skyttuna Eddie House.



