Þetta myndband sýnir eina af síðustu sóknum Grindavíkur í leik 2 í úrslitaviðureign Grindavíkur og KR í úrslitum. Staðan er 75-73 og um 15 sekúndur eftir af leiknum. Rennum aðeins yfir hvað er að gerast hérna.
Grindvíkingar eru tveimur stigum yfir en það er of mikið eftir af klukkunni til að reyna að drippla hana út án þess að vera brotið á sér. Því teiknar Sverrir Þór Sverrisson upp kerfi sem blekkir vörn KR-inga til að halda að spilaði sé upp á þriggja stiga skot. Ólafur Ólafs og Lewis Clinch höfðu verið sjóðandi í fjórða hlut og þeir taka af skarið og hlaupa út. Ómar Örn setur hindrun fyrir Clinch og flassar strax að körfunni þar sem Jóhann Árni finnur hann beint úr innkasti. Teigurinn galopinn og greið leið að körfunni fyrir Ómar. Frábært leikkerfi og vel framkvæmt af Grindvíkingum.
Hvað gera hins vegar KR-ingar? Það er ekki að ástæðulausu að þetta lið er með bestu varnartölfræði allra liða í deildinni. Þetta er einfaldlega frábært varnarlið og það sést vel þarna.
Helgi Már gleymir sér í örfá sekúndubrot og nær Ólafur góðu forskoti á hann þannig. Helgi fylgir Ólafi en fer undir til að eyða ekki of miklum tíma í eltingaleik. Demond Watt, sem í upphafi er að gæta Ómars tekur við gæslunni á Ólafi. Helgi sér það strax og snýr sér við til að passa teiginn. Finnur þar Ómar á leiðinni að körfunni og brýtur á honum. Hefði Helgi ekki náð honum þá var hjálp á leiðinni frá Martin sem var að falla niður af veiku hliðinni á hárréttu augnabliki.
Svona spila bestu lið deildarinnar. Spilið þetta aftur og aftur krakkar og lærið af þeim bestu.