Sextán liða úrslit evrópukeppni U20 landsliða fara fram í dag með átta leikjum. Íslendingar ríða á vaðið og andstæðingarnir eru ekki algjörlega óþekkt stærð.
Það eru nágrannar Íslands, Svíþjóð sem bíða Íslands í 16 liða úrslitum mótsins. Svíþjóð endaði í öðru sæti A-riðils en Grikkland vann riðilinn nokkuð örugglega. Með sigri Íslands á Svartfjallalandi losnaði liðið við að mæta heimamönnum í Grikklandi sem þykir ansi sigurstranglegt lið á mótinu.
Ísland mætti Svíþjóð á æfingamóti sem fram fór í Reykjavík fyrir nokkrum vikum. Þar vann Ísland þriggja stiga sigur eftir frábæra endurkomu í lokin. Íslenska liðið spilaði alls ekki frábærlega í þeim leik og því má segja að möguleikar Íslands á að komast í átta liða úrslit séu að minnsta kosti til staðar.
Sigur í 16 liða úrslitum þýðir ekki bara að liðið tryggir sér í átta efstu sæti keppninnar heldur er Ísland þar með með tryggt áframhaldandi sæti í A-deild að ári sem var stærsta markmið mótsins. Svíar eru með sterkt lið í ár og unnu góða sigra á Þýskalandi og Tékklandi, það er því erfiður leikur framundan.
Umfjöllun um leik Íslands og Svíþjóðar á æfingamótinu má finna hér.
Leikir dagsins á íslenskum tíma: Allir leikirnir eru í beinni á Youtube-rás FIBA.
Ísland – Svíþjóð kl 11:30
Tyrkland – Þýskaland kl 11:30
Ísrael – Ítalía kl 13:45
Spánn – Lettland kl 13:45
Frakkland – Tékkland kl 16:00
Litháen – Slóvakía kl 16:00
Grikkland – Svartfjallaland kl 18:15
Serbía – Úkraína kl 18:15