spot_img
HomeFréttirSvíar sterkari þegar U16 ára liðið tapaði sínum fyrsta leik

Svíar sterkari þegar U16 ára liðið tapaði sínum fyrsta leik

 
Banabiti Íslands í stórleiknum gegn Svíþjóð í U16 ára drengjaflokki var að klára færin sín í teignum ekki af nægilegu harðfylgi. Svíar léku þétta vörn og Íslendingar voru einfaldlega ekki nógu grimmir til þess að komast upp að hlið Svía að nýju á lokasprettinum og því tapaði U16 ára liðið sínum fyrsta leik á Norðurlandamótinu, lokatölur 70-80 Svíþjóð í vil. Svíar eru gulltryggðir inn í úrslitaleikinn en Ísland mætir Danmörku á morgun þar sem sigur í þeim leik gæti líklegast fært þeim íslensku sæti í úrslitaleiknum og tækifæri á að jafna metin við þá gulu.
Ísland fékk fína byrjun á leiknum, þeir bláu gerðu fjögur fyrstu stig leiksins og Maciej Baginski hrúgaði inn villum á stóru leikmenn Svía er hann keyrði trekk í trekk af miklum krafti inn í gula teiginn. Ísland lék maður á mann vörn allan fyrsta leikhluta og gaf það vel en fram til þessa á mótinu hefur 16 ára liðið frekar haldið sig við svæðisvörnina.
 
Þrír íslenskir þristar á seinni stigum fyrsta leikhluta héldu okkar mönnum við efnið, þar voru þeir Dagur Kár, Oddur Rúnar og Erlendur Stefánsson að verki og Þorsteinn Eyfjörð Þórarinsson átti svo lokaorðið í leikhlutanum með sirkuskörfu er hann brunaði í gegnum sænska teiginn, Ísland leiddi 21-19 eftir fyrstu tíu mínúturnar.
 
Heimamenn í Svíþjóð komu grimmir inn í annan leikhluta og settu sex stig á Ísland án þess að okkar menn næðu að svara. Íslenska vörnin var á hælunum framan af og eftir rétt rúmlega þriggja mínútna leik var blásið til svæðisvarnar.
 
Erfiðlega gekk hjá Íslandi að klára færi sín í teignum en þriggja stiga skotin voru að detta á köflum og Oddur Rúnar Kristjánsson setti langþráðan þrist er hann minnkaði muninn í 34-39. Oddur var aftur á ferðinni þegar 45 sekúndur voru til hálfleiks er hann setti niður lygilegan þrist nánast frá miðju um leið og skotklukkan rann út.
 
Heimamenn í Svíþjóð leiddu í hálfleik 37-41 og geta þakkað andstæðingum sínum frá Íslandi að vera ekki undir sem skoruðu aðeins úr 3 af 23 skotum sínum í teignum.
 
Oddur Rúnar Kristjánsson var með 11 stig og 4 fráköst í hálfleik, Dagur Kár Jónsson 8 stig og Maciej Baginski var með 6 stig og 6 fráköst.
 
Ísland á hælunum í upphafi þriðja leikhluta og Svíar nýttu það til fulls, byrjuðu 2-6 og léku þétta vörn. Íslensku þristarnir voru ekki að detta í þriðja leikhluta en eftir tæplega sjö mínútna erfiðleika kom 6-0 rispa hjá Íslandi sem minnkaði muninn í 47-57. Svíar leiddu þó 52-64 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og virtust á þessum tímapunkti halda á öllum trompum leiksins.
 
Maciej Baginski opnaði fjórða leikhluta fyrir Ísland með villu og körfu að auki og íslenska vörnin var einnig grimmari og hélt Svíum án stiga fyrstu tvær mínútur leikhlutans. Erlendur Stefánsson færði Ísland nærri í 60-66 með þriggja stiga körfu en Svíar slitu sig frá að nýju og héltu Íslandi ávallt vel fyrir aftan sig með gríðarsterkum varnarleik. Lokatölur reyndust 70-80 Svíþjóð í vil í leik þar sem teignýting Íslands varð liðinu að falli en liðið skoraði aðeins úr 13 af 50 teigskotum sínum og bráðvantaði strákunum að klára færin sín af meiri krafti.
 
Sigur Svía þýðir að þeir séu gulltryggðir inn í úrslitaleikinn en það skýrist kannski með kvöldinu eða jafnvel morgundeginum hvort Ísland geti farið í sjálfan úrslitaleikinn eða bronsleikinn.
 
Maciej Baginski var stigahæstur í íslenska liðinu í dag með 23 stig og 10 fráköst. Oddur Rúnar Kristjánsson bætti við 16 stigum og 5 fráköstum og Dagur Kár Jónsson var með 14 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Erlendur Stefánsson átti nokkrar rispur með 8 stig.
 
 
Mynd/ Maciej Baginski var stigahæstur í hjá Íslandi í dag með 23 stig og 10 fráköst.
 
Fréttir
- Auglýsing -