Svíar eru Norðurlandameistarar eftir öruggan 65-93 sigur á Íslendingum í U18 ára flokki karla. Jafnt var á með liðunum í fyrri hálfleik en Svíar unnu þriðja leikhluta 29-12 og lögðu þar með grunninn að sigrinum í leiknum. Árangur íslenska liðsins er eftirtektarverður enda flestir leikmenn liðsins á yngra árinu á mótinu og koma flestir úr meistaraliði Íslands frá NM 2010. Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur í silfurliði Íslands í dag með 20 stig og 3 fráköst.
Valur Orri Valsson gerði fyrstu stig Íslands í leiknum með þriggja stiga körfu en Svíar voru sprækari á upphafsmínútunum og komust í 3-8 þar sem þeir fundu allar mögulegar glufur á íslensku svæðisvörninni og Marcus Eriksson var að hitta vel og skoraði 14 af fyrstu 17 stigum Svía í leiknum.
Er líða tók á leikhlutann færðust okkar menn nærri og Matthías Orri minnkaði muninn í 16-17 með þriggja stiga körfu þegar 1.30mín. var eftir af leikhlutanum. Ekki löngu síðar kom Emil Karel Einarsson svellkaldur af bekknum og kom Íslandi í 19-17 með þrist og þannig stóðu leikar að loknum fyrsta leikhluta. Fínn upphafsleikhluti þar sem íslenska liðið vann á með hverri mínútunni.
Snorri Hrafnkelsson var líflegur í upphafi annars leikhluta og skoraði fjögur stig í röð áður en Svíar tóku á rás og komu muninum upp í 23-27. Íslenska liðið var ekki öfundsvert að því að sækja inn í sænska teiginn sem er mun hávaxnari og komst upp með allt of mikla hörku í öðrum leikhluta sem lýsti sér í að Ísland tók aðeins tvö vítaskot allan fyrri hálfleikinn.
Tveir þristar frá KR-ingunum Matthíasi og Martin færðu íslenska liðið nærri Svíum að nýju og staðan orðin jöfn 31-31 þegar um þrjár mínútur voru til hálfleik. Marcus Eriksson tók á rás að nýju í liði Svía og sá til þess að gulir leiddu 33-39 í hálfleik en kappinn setti niður öll sex teigskotin sín í fyrri hálfleik og var með 18 stig í leikhléi. Hjá Íslandi var Martin Hermannsson með 9 stig og Matthías Orri 8.
Fráköstin voru einnig að reynast okkar mönnum erfið í fyrri hálfleik, Svíar með 22 gegn 12 frá Íslandi.
Svíar voru einráðir á vellinum í þriðja leikhluta, þeir voru fljótir að koma muninum upp í tíu stig enda kom hvert íslenskt stig með mikilli fyrirhöfn. Þegar mínúta var eftir af þriðja leikhluta höfðu heimamenn komið muninum upp í 20 stig, 44-64. Staðan var svo 45-70 að loknum þriðja leikhluta og góð nýting heimamanna ásamt því að Íslendingar voru ekki nægilega fastir fyrir, stigu ekki út af krafti voru að fara með okkar menn í þriðja hluta sem Svíar unnu 29-12.
Seint í þriðja og allan fjórða leikhluta skipti íslenska liðið úr maður á mann vörninni yfir í svæðisvörnina en það var sama hvað okkar menn reyndu. Í dag áttu Svíar einfaldlega svör við öllum aðgerðum íslenska liðsins og því voru lokatölur 65-93 Svíum í vil. Lið sem vann Ísland með aðeins þremur stigum í riðlakeppninni.
Í fjórða leikhluta fóru íslensku piltarnir að sækja grimmt á körfu Svía og uppskera villur og vítaskot, eitthvað sem hefði þurft að fara fyrr af stað í leiknum.
Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur hjá okkur í dag með 20 stig og 3 fráköst. Næstur í röðinni var Valur Orri Valsson með 13 stig og 5 stoðsendingar og Martin Hermannsson bætti við 9 stigum. Snorri Hrafnkelsson tók fínar rispur en hann var stöðugur og skilaði vel öllum sínum mínútum á mótinu.
Úrslit Íslands á mótinu
Ísland 80 – 65 Danmörk
Ísland 74 – 77 Svíþjóð
Ísland 81 – 60 Noregur
Ísland 81 – 96 Finnland
Úrslitaleikurinn:
Ísland 65 – 93 Svíþjóð
Að leik loknum var Valur Orri Valsson valinn í úrvalslið mótsins og Matthías Orri Sigurðarson var valinn besti maður úrslitaleiksins.
Mynd/ Þorsteinn Ragnarsson átti fína spretti í úrslitaleiknum í dag.