spot_img
HomeFréttirSverrir: Vantaði lukku í restina

Sverrir: Vantaði lukku í restina

 
,,Þær hittu úr öllum vítunum og voru að klára erfið skot í kringum teiginn og gerðu vel undir lokin, það er eiginlega munurinn á liðunum í kvöld. Svo var reynsla þeirra væntanlega að hjálpa þegar vítin duttu niður hér í lokin,” sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Njarðvikinga eftir tap þeirra grænu gegn Íslandsmeisturum KR í Iceland Express deild kvenna í kvöld.
Leikurinn í kvöld var í raun fyrsti leikur Njarðvíkinga á tímabilinu þar sem úrslit leiks ráðast ekki fyrr en í blálokin, var kominn tími á svona leik fyrir Njarðvíkinga til að geta unnið saman úr svona verkefni upp á framhaldið að gera?
 
,,Auðvitað kýs maður það að vera búinn að klára leikina áður en kemur að síðustu sekúndunum en þetta fer í reynslubankann. Í fyrri hálfleik komum við okkur í slæma stöðu en unnum það upp í þriðja leikhluta og í restina vantaði okkur smá lukku. Það gekk ekki að sinni en við erum í ágætum málum í deildinni en þurfum að fara að vinna leiki aftur,” sagði Sverrir sem lét Ditu Liepkalne leika mikið í kvöld þrátt fyrir að leikmaðurinn hafi ekkert æft að ráði frá því hún tognaði á ökkla í síðasta deildarleik gegn Hamri.
 
,,Dita var inná nánast allan tímann og það sást alveg að hún var ekki að gera alla þá hluti sem hún hefur verið að gera en hún hjálpaði okkur helling,” sagði Sverrir sem stýrir Njarðvíkingum í næstu umferð gegn Keflavík á útivelli.
 
Fréttir
- Auglýsing -