09:00
{mosimage}
(Sverrir Þór Sverrisson leikmaður UMFN)
Bakvörðurinn margreyndi Sverrir Þór Sverrisson kom frá Keflavík yfir til Njarðvík fyrir þessa leiktíð en leikmannaskipti á borð við þessi eru fátíð. Sverrir Þór hefur gert 5,6 stig að meðaltali í leik með Njarðvíkingum í vetur en hann mun örugglega í dag fá það vandasama verkefni að hafa gætur á Justin Shouse þegar Snæfell mætir í Ljónagryfjuna kl. 16:00 í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar.
Miðherjinn Friðrik Erlendur Stefánsson verður ekki með grænum í úrslitakeppninni og er það gríðarlegt skarð fyrir skyldi hjá Njarðvíkingum. Sverrir Þór segir að aðrir liðsmenn hópsins verði einfaldlega að þjappa sér saman og leggja meira á sig í fjarveru Friðriks.
,,Það er ekkert við þessu að gera nema snúa bökum saman og hjálpast að við að fylla skarð Friðriks. Við þurfum allir að leggja meira á okkur og menn verða vera tilbúnir að spila fleiri mínútur en áður og nú er tíminn fyrir marga að stíga upp og sanna sig,” sagði Sverri í samtali við Karfan.is.
Sverrir hefur verið lengi að og farið að síga á seinni hlutann á ferlinum hjá þessum öfluga bakverði. ,,Ég er í fínu standi og einvígið gegn Snæfell leggst vel í mig. Ég hætti bara í körfu þegar ég er kominn með algert ógeð og nenni þessu ekki en ég tel að það sé ekkert að fara að gerast strax,” sagði Sverrir og bætti við að Njarðvíkingar þyrftu núna allir að leggjast á eitt í frákastabaráttunni.
,,Snæfellingar eru með stærra lið en við og þeir eru mjög skipulagðir og sterkir en við komum klárir og ætlum að hjálpast að í vörninni og frákastabaráttnunni. Við þurfum alla okkar fimm menn sem eru á vellinum til að hjálpast að í fráköstunum,” sagði Sverrir og skyldi engan undra enda er Hlynur Bæringsson leikmaður bikarmeistara Snæfells einhver almesta frákastamaskína landsins um þessar mundir.
Laugardagur 29. mars
Njarðvík-Snæfell kl. 16:00
Í beinni á Stöð 2 sport
Ljónagryfjan í Njarðvík



