spot_img
HomeFréttirSverrir Þór: Þær eiga að þora að vera inn á sama hver...

Sverrir Þór: Þær eiga að þora að vera inn á sama hver staðan er

Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur eftir tap gegn Haukum

 

Hvað fór úrskeiðis í dag?

Við bara guggnuðum á síðustu mínútunum, þorðum ekki að spila þær af sama krafti og við vorum búnar að gera allann leikinn. Megnið af þessum leik var með betri frammistöðum hjá okkur í vetur og síðustu sex mínúturnar var bara hræðsla og hik á öllu og leikmenn sem voru búnar að vera frábærar í leiknum vildu helst ekki fá boltann í sókninni. Einhvern veginn vorum við að klúðra boltanum, taka léleg skot, ekkert sjálfstraust í neinum skotum og þær voru að keyra í bakið á okkur og munurinn minnkaði og minnkaði. Svo náttúrulega datt þetta bara þeirra megin í restina. Við hleyptum þeim algjörlega inn í þetta og bara algjört klúður hjá okkur.

Pressan hjá þeim undir lokin virtist fara illa í þínar stelpur.

Já, þær svæðispressuðu en við komum boltanum upp. En þá byrjaði bara eitthvað rugl, í staðinn fyrir að koma honum, eins og við höfðum gert allan leikinn, á leikstjórnandann og setja eitthvað í gang. Þetta er grátlegt, að vera fara tómhentur heim eftir að hafa verið með þennan leik gjörsamlega í vasanum allann tímann.

Hvað takið þið þá frá leiknum?

Ja, bara framan af leiknum hvernig við getum spilað þegar sjálfstraustið er í botni og allar þora að vera til og þær hafa gaman af þessu. Það þarf hver og ein að fara skoða það að þær eiga að þora að vera inn á sama hver staðan er, í hvaða leik, í hvaða leikhluta og spila eins. Þær vildu bara helst ekki vera til allt of margar og ég skil það bara ekki, eins góðar og þær eru. Ég næ því ekki.

Næsti leikur er gegn Njarðvík á ykkar heimavelli, þið mætið væntanlega stemmdar í þann leik?

Við verðum að gera það, þurfum að mæta og gera miklu betur en hér. Eins og búið er að sýna sig, ef við mætum ekki tilbúin og spilum ekki leikinn á fullu allann tímann, þá töpum við. En ef við spilum af krafti alveg frá upphafi til enda þá erum við ansi líkleg til að vinna.

Ertu búinn að kjósa?

Heyrðu, nei, ég er ekki búinn að því. Það er sennilega næst á dagskrá eftir að maður fer héðan.

 

Fréttir
- Auglýsing -