spot_img
HomeFréttirSverrir Þór og Thelma Dís til Keflavíkur - Agnes og Anna Lára...

Sverrir Þór og Thelma Dís til Keflavíkur – Agnes og Anna Lára framlengja

Keflavík hefur samið við þjálfarann Sverrir Þór Sverrisson og framherjann Thelmu Dís Ágústsdóttur fyrir komandi átök í Subway deild kvenna.

Sverrir er að sjálfsögðu fyrrum leikmaður Keflavíkur, en hann hefur einnig þjálfað frá árinu 2004. Hann hefur í tvígang áður verið aðalþjálfari kvennaliðs Keflavíkur, 2004-06 og 2016-18, en hann hefur einnig þjálfað í Njarðvík, Grindavík og hjá íslenska landsliðinu. Hann hefur í þrígang gert lið að Íslandsmeisturum 2005, 2012, 2017. Síðast var Sverrir sem aðstoðarþjálfari karlaliðs Keflavíkur nú á nýafstaðinni leiktíð.

Thelma Dís er að upplagi úr Keflavík en hélt vestur um haf til þess að leika fyrir Ball State Cardinals í bandaríska háskólaboltanum árið 2018. Þrátt fyrir að hafa verið aðeins 19 ára þegar hún hélt út hafði Thelma Dís unnið alla titla með Keflavík og verið valin verðmætasti leikmaður deildarinnar áður en hún fór. Þá var hún aðeins 18 ára farin að spila fyrir íslenska a landsliðið, en vegna ósamræmis á milli háskólaboltans og FIBA hefur hún ekki náð að leika nema 16 leiki, þar sem sá síðasti var 2019. Með Ball State gerði hún vel síðustu tímabil og var hún með 13 stig og 4 fráköst að meðaltali í leik á því síðasta. Þá var henni boðið að taka þátt í þriggja stiga keppni lokamóts Marsfársins, en hún var með 42% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna á tímabilinu með Ball State.

Þá hefur liðið framlengt samninga sína við Önnu Láru Vignisdóttur og Agnesi Maríu Svansdóttur. Báðar áttu þær stóran þátt í góðu gengi Keflavíkur á tímabilinu, þar sem liðið vann deildarmeistaratitil og varð í öðru sæti bæði í bikar og úrslitakeppni.

Fréttir
- Auglýsing -