Ísland lék þriðja leik sinn í riðlakeppni B-deildar Evrópumóts U18 landsliða kvenna sem fram fer í Dublin þessa dagana. Andstæðingur Íslands var Austurríki hafði einungis unnið Albaníu í riðlinum. Leikurinn var því þýðingarmikill uppá möguleika Íslands á að lenda ofarlega í B-riðli mótsins.
Leikurinn í dag var hnífjafn og munurinn á liðunum ekki mikill. Austurríki leiddi framan af leik en Íslenska liðið var aldrei langt á eftir. Frábær varnarleikur Íslands á lokasprettinum gerði leikinn að háspennu leik. Ísland fékk tækifæri á að jafna þegar lítið var eftir en klaufaleg mistök í sóknarleiknum komu í veg fyrir það.
Lokastaðan var 52-55 fyrir Austurríki en Dagbjörg Dögg Karlsdóttir átti fína þriggja stiga skottilraun í lok leiks til að knýja fram framlengingu en boltinn vildi ekki ofan í. Ísland situr því í fimmta sæti riðilsins eftir leikinn og er enn án sigurs.
Þóranna Kika Hodge -Carr var öflugust í Íslenska liðinu í dag. Hún var með 17 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Dagbjört Dögg Karlsdóttir var með 14 stig og Birna Valgerður Benónýsdóttir með 12 stig.
Ísland leikur síðasta leik sinn í riðlakeppninni á morgun og mætir þá Albaníu. Albanía hefur einnig tapað öllum leikjum sínum á mótinu og því úrslitaleikur um fjórða sæti riðilsins. Albanía tapaði leik sínum gegn Austurríki 40 stigum og því möguleikar Íslands á sigri til staðar. Leikurinn fer fram kl 15:00 að Íslenskum tíma.