spot_img
HomeFréttirSvekkjandi tap en magnaður árangur

Svekkjandi tap en magnaður árangur

Íslenska U20 landsliðið hefur lokið leik í A-deild evrópumótsins þetta árið. Liðið tapaði gegn Þýskalandi í leik um sjöunda sæti mótsins og lýkur því leik í áttunda sæti. 

 

Ísland byrjaði leikinn frábærlega og leiddi 20-10 eftir fyrsta leikhluta. Þýskaland gerði vel í að bregðast við aðgerðum Íslands og náðu að setja saman góð áhlaup til að ná forystunni í þriðja leikhluta og gekk erfiðlega fyrir Ísland að kom til baka eftir það. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan: 

 

Gangur leiksins:

 

Ísland fór frábærlega af stað í dag. Varnarleikur liðsins hélt mjög og setti liðið góðar körfur hinu megin. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 20-10 fyrir Íslandi en stemmningin og áræðnin sem liðinu hefur vantað í síðustu tveimur leikjum var greinilega strax til staðar. 

 

Þýskaland byrjaði annan leikhluta á að setja 16-6 áhlaup á Ísland til að jafna leikinn. Ísland leiddi þó stærstan hluta af fyrri hálfleik og fór með þriggja stiga forystu inní hálfleikinn 35-38. 

 

Í þriðja leikhluta var eign Moritz Wagner sem lék um hvern sinn fingur. Hann setti 15 stig í leikhlutanum og kom Þýskalandi í forystu. Þjóðverjar náðu 12-0 áhlaupi um miðjan þriðja leikhluta og komust í 53-48. Ísland hélt þó í og var staðan 59-54 þegar lokafjórðungurinn hófst. 

 

Síðasti leikhluti var nokkuð jafn en Þýskaland alltaf skrefinu á undan. Ísland náð fínu áhlaupi í lok leiksins til að minnka muninn í þrjú stig en röð atvika þar sem Ísland fór illa með skot sitt og annars ágætir dómarar leiksins tóku daprar ákvarðanir í lokin. Það reyndist þó ekki úrslitaákvarðanirnar þar sem Ísland fór ansi illa með sín skot í lok leiks. 

 

Lokastaðan 79-73 fyrir Þýskalandi sem vann þar með sjöunda sæti mótsins en Ísland endar í því áttunda. 

 

 

Tölfræði leiksins:

 

Enn og aftur er nýting Íslenska liðsins að reynast dýrkeypt. Liðið hitti 20% fyrir utan þriggja stiga og oft úr ágætis tilraunum. Þýskaland hitti hins vegar 33% úr þriggja stiga skotum og nærri 50% skotnýtingu í heild. Þýskaland fékk níu fleiri stig úr hraðaupphlaupum sem reyndist rándýrt í þessum leik. 

 

 

Hetjan:

 

Tryggvi Snær var að vanda gríðarlega sterkur hjá Íslandi í dag. hann endaði með 23 stig, 8 fráköst og tvö varin skot. Hann lennti hinsvegar í nokkrum vandræðum varnarlega gegn Moritz Wagner sem keyrði mikið á hann eða skaut yfir hann í leiknum. 

 

Halldór Garðar Hermannsson var sterkur og endaði með 12 stig, tvær stoðsendingar og 60% nýtingu á einungis ellefu mínútum. Ingvi Guðmundsson endaði einnig með 12 stig en hann var óhræddur við að skjóta boltanum. 

 

 

Kjarninn:

 

Þessu sögulega móti er þar með lokið í Grikklandi. Ísland endar í áttunda sæti mótsins sem verður að segjast að er nokkuð framúr væntingum. Þrátt fyrir það fer liðið nokkuð svekkt frá síðasta leik þar sem síðustu þrír leikirnir töpuðust en það á móti gríðarlega sterkum körfuboltaþjóðum. Finnur þjálfari hefur sagt það vera markmið liðsins að spila gegn sterkustu leikmönnum evrópu og það hefur heldur betur tekist hér á Krít. 

 

Liðið getur gengið stolt frá verkefninu, að vera meðal átta efstu þjóða evrópu í aldurshópnum U20 er ótrúlegur árangur og hefur ekkert íslenskt körfuboltalið komist svo langt á evrópumóti. Varnarlega hefur liðið spilað frábærlega heilt yfir og náð að stoppa frábær lið. Akilesarhæll Íslands á þessu móti voru hinsvegar skotin sem hreinlega duttu ekki ofan í. Liðið var oft að koma sér í góð skotfæri en nýtingin döpur. 

 

Niðurstaðan er að Ísland mun leika aftur á mótinu eftir ár. Leikmenn á eldra ári núna eru hávaxnari og munu leikmenn á borð við Tryggva og Kára ekki vera með að ári. Það er því heldur betur tækifæri fyrir leikmenn fædda árið 1999 að koma sér í alvöru form og spila á þessu stóra sviði að ári. 

 

Saga mótsins hingað til er hinsvegar Tryggvi Snær Hlinason og hans frammistaða. Á mótinu hefur hann komið sér í raðir efnilegustu leikmanna Evrópu og eru blaðamenn farnir að orða hann við NBA deildina í framtíðinni. Framfarir Tryggva eru ótrúlegar en það má ekki gleymast að hann byrjaði að stunda körfubolta fyrir þremur árum. Enn vantar nokkuð uppá vopnabúrið og þá sérstaklega varnarlega en miðað við framfarirnar sem hann hefur sýnt á þessum tíma verður spennandi að fylgjast með honum næstu misserin. 

 

 

Myndasafn

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun, viðtöl og myndir / Ólafur Þór Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -