spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2023Svekkjandi sex stiga tap Íslands í Búkarest

Svekkjandi sex stiga tap Íslands í Búkarest

Rúmenía lagði Ísland rétt í þessu í undankeppni EuroBasket 2023 í Búkarest, 65-59. Leikurinn sá fyrsti sem liðin leika í keppninni, en ásamt Íslandi og Rúmeníu eru Spánn og Ungverjaland í riðli C.

Hérna er heimasíða mótsins

Gangur leiks

Heimakonur í Rúmeníu voru skrefinu á undan á fyrstu mínútum leiksins. Ná að skora fyrstu sex stig leiksins áður en Ísland svarar. Ísland nær þó að vinna það niður og er leikurinn í nokkru jafnvægi þegar sá fyrsti er á enda, 18-16. Undir lok fyrri hálfleiksins er leikurinn svo áfram jafn og spennandi, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn aðeins eitt stig, 28-27.

Leikurinn er svo áfram í járnum í upphafi seinni hálfleiksins. Ísland kemst í einhver skipti yfir í þriðja leikhlutanum, en á í erfiðleikum með að láta kné fylgja kviði, leiða þó fyrir lokafjórðunginn með einu stigi, 47-48. Heimakonur ná að vera skrefinu á undan lungann úr fjórða leikhlutanum, en undir lokin var leikurinn þó nokkuð spennandi. Ísland aðeins stigi undir þegar tæpar 2 mínútur voru eftir, en gengur bölvanlega á sóknarhelmingi vallarins í þessum brak mínútum og tapa að lokum með 6 stigum, 65-59.

Kjarninn

Íslenska liðið gerði gríðarlega vel í dag. Voru að spila án lykilmanna, Hildur Björg Kjartansdóttir, Helena Sverrisdóttir og Isabella Ósk Sigurðardóttir allar frá vegna meiðsla. Þá voru þær einnig að leika við andstæðing sem er samkvæmt heimslista mun sterkari, þar sem Ísland er í 67. sæti á meðan að Rúmenía er í því 47.

Auðvitað bar Sara Rún Hinriksdóttir af, en ásamt henni voru Dagbjört Dögg Karlsdóttir, Lovísa Björt Henningsdóttir og Embla Kristínardóttir skila frábærum frammistöðum fyrir Ísland í dag. Þeir nýliðar sem léku mest, Dagný Lísa Davíðsdóttir og Anna Ingunn Svansdóttir áttu einnig ágætisleiki og spennandi verður að sjá þær koma enn betur inn í liðið með tíð, tíma og fleiri leikjum.

Atkvæðamestar

Sara Rún Hinriksdóttir var atkvæðamest í liði Íslands í dag með 17 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar. Þá bætti Dagbjört Dögg Karlsdóttir við 12 stigum og 2 fráköstum.

Hvað svo?

Næsti leikur Íslands í riðlinum er heima í Ólafssal komandi sunnudag 14. nóvember gegn Ungverjalandi.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Upptaka af leiknum:

Fréttir
- Auglýsing -