spot_img
HomeFréttirSveinn Búi eftir fyrsta tímabilið með Siena Saints "Spennandi að vera loksins...

Sveinn Búi eftir fyrsta tímabilið með Siena Saints “Spennandi að vera loksins kominn af stað í þessu umhverfi”

KR-ingurinn Sveinn Búi Birgisson gekk síðastliðið haust til liðs við Siena Saints í bandaríska háskólaboltanum eftir að hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn með Val þar sem hann spilaði að meðaltali um 7 mínútur í 25 leikjum á tímabilinu. Tímabilið á undan, 2020-21, var Sveinn Búi á mála hjá Selfoss í fyrstu deildinni, þar spilaði hann 30 mínútur að meðaltali í leik og skilaði 12 stigum, 6 fráköstum og 2 stoðsendingum, en eftir það tímabil var hann valinn besti ungi leikmaður deildarinnar á árlegu verðlaunahófi KKÍ.

Sveinn Búi lék á sínum tíma upp úr yngri flokkum KR og var kominn í meistaraflokk félagsins 16 ára gamall tímabilið 2018-19. Þaðan fór hann til Selfoss 2020 í fyrstu deildina áður en hann samdi við Val fyrir síðasta tímabil, 2021-22. Þá hefur hann verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands, nú síðast sigursælu U20 liði Íslands sem endaði í öðru sæti Evrópumótsins og vann sér inn þátttökurétt í A deild komandi sumar.

Siena Saints eru staðsettir í Albany í New York ríki Bandaríkjanna og leika í MAAC í fyrstu deild bandaríska háskólaboltans. Tímabil þeirra er nú búið og endaði skólinn með 17 sigra og 15 töp í heild á tímabilinu, en 11 sigra og 9 töp í deild.

Karfan hafði samband við Svein Búa og spurði hann aðeins út í þetta fyrsta ár með Siena, hvernig stemningin sé í Albany og hvað hann hyggist gera í framhaldinu.

Hvernig er að vera kominn af stað í bandaríska háskólaboltanum?

“Það hefur alltaf verið draumurinn að fá að spila hér í háskólaboltanum úti og það er spennandi að vera loksins kominn af stað í þessu umhverfi.”

Hvernig er stemmningin í Albany?

“Albany er fín borg og fullt af frábæru fólki. það er mikil stemming fyrir körfuboltaliðinu og við fáum frábæran stuðning frá aðdáendunum okkar. Maður dettur oft á spjallið við fólk sem fylgist með liðinu og það er alltaf skemmtilegt.”

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist hérna heima?

“Já, ég myndi segja að karfan hér úti er töluvert öðruvísi. Skotklukkan er 30 sekúndur og hver sókn skiptir ótrulega miklu máli. Hér úti spilum við meiri agaðri körfubolta og erum að vinna með fleiri kerfi heldur en maður er vanur.”

Nú ferðu út eftir að hafa unnið titilinn með Val, var ekkert erfitt að taka stökkið og sjénsinn á því að þú næðir að halda áfram að bæta þig þarna úti?

“Jú, en mér fannst ég hafa undirbúið mig vel fyrir næsta skrefið hérna úti. Klárlega erfitt að fara úr góðu umhverfi hér heima en vildi prófa eitthvað nýtt.”

Fylgist væntanlega vel með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á úrslitakeppnina?

“Mínir menn í Val eiga minn stuðning og ná vonandi að koma til baka og taka enn einn titilinn”

Hvernig gekk Siena á þessu tímabili og hvernig gekk þér með þeim?

“Það gekk mjög vel framan af. Framan af vorum við efstir í deildinni, en svo endaði liðið með 6 tapleiki í röð, hafnaði í 3. sæti í deildinni og duttum út í fyrstu umferð í úrslitakeppninni. Ég fékk fá tækifæri til að sanna mig á vellinum í vetur, en það á vonandi eftir að breytast.”

Verður þú áfram úti á næsta tímabili með Siena?

“Já, ég verð áfram”

Hver eru markmiðin þín fyrir næsta tímabil?

“Markmiðin mín fyrir næsta tímabil eru komast í alvöru hlutverk hjá liðinu og bæta mig í öllum hliðum leiksins. Svo bara njóta þess að vera hér úti í USA að spila íþróttina sem maður elskar.”

Fréttir
- Auglýsing -