spot_img
HomeFréttirSveinbjörn Claessen kominn á fullt eftir meiðsli

Sveinbjörn Claessen kominn á fullt eftir meiðsli

15:51

{mosimage}

Bakvörðurinn öflugi Sveinbjörn Claessen hefur lítið sem ekkert æft eftir úrslitakeppnina í Iceland Express deildinni en hann hefur verið að glíma við bakmeiðsli. Sveinbjörn er nú kominn á fullt að nýju og stefnir ótrauður að því að gera betur með ÍR á næstu leiktíð og vinna sér inn sæti í A-landsliðinu fyrir Evrópuverkefnin sem framundan eru. Karfan.is náði á Sveinbjörn sem skorar á félaga sína í landsliðinu að berjast og hafa gaman af seinni leiknum gegn Litháen á morgun.

„Þetta var útbungun í baki sem er undanfari brjóskloss og ég hef verið frá síðan síðasta leiktímabili lauk,“ svaraði Sveinbjörn aðspurður um meiðsli sín. „Ég horfði á nokkrar landsliðsæfingar en hef verið á bremsunni fram á síðasta þriðjudag en þá fékk ég grænt ljós frá læknunum til þess að byrja á fullu,“ sagði Sveinbjörn sem gerði 14,4 stig að meðaltali í leik fyrir ÍR í deildarkeppninni.

„Leiðinlega tímabilið, að vera meiddur, er búið hjá mér og ég verð klár í næstu verkefni með landsliðinu þar sem ég stefni á að vinna mér inn sæti. Ég mun æfa vel í allt sumar og komast í þetta lið!“ sagði Sveinbjörn ákveðinn en hann lék mikið meiddur í úrslitakeppninni með ÍR.

„Ég bruddi mikið af verkjalyfjum og stönglaðist í gegnum þetta. Árangur okkar í úrslitakeppninni hefur farið vaxandi og á næstu leiktíð stefnum við bara á að ná inn í úrslitin og fara alla leið,“ sagði Sveinbjörn sem grætur það ekki að hafa misst af Litháenferð landsliðsins.

„Maður fær ekki svona tækifæri á hverjum degi, að leika gegn stórþjóð eins og Litháen en ferillinn er rétt að byrja og þetta er enginn banabiti. Ég sé ekki ástæðu til að væla undan einhverju sem maður breytir ekki, það eru stóru leikirnir í haust sem telja og þar ætla ég mér í liðið,“ sagði Sveinbjörn sem vildi koma þessum skilaboðum til íslensku landsliðsmannanna í Litháen.

„Berjast og hafa gaman af þessu, njóta þess að spila svona leiki, maður biður ekki um meira,“ sagði Sveinbjörn en óneitanlega verður erfitt fyrir Sigurð Ingimundarson landsliðsþjálfara að horfa fram hjá Sveinibirni þegar hann er kominn á fullt skrið.

[email protected]

Mynd: [email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -