spot_img
HomeFréttirSvavar tryggði Stólunum tvö stig með flautukörfu (Umfjöllun)

Svavar tryggði Stólunum tvö stig með flautukörfu (Umfjöllun)

02:03
{mosimage}

(Svavar Atli Birgisson var hetja Tindastóls í kvöld) 

Í kvöld tóku Þórsarar á móti Tindastóli á heimavelli sínum í Síðuskóla í 18. umferð í Iceland Express deildinni í körfuknattleik. Fyrir leikinn bjuggust menn við jöfnum og spennandi leik, enda var fyrri leikur liðanna á Sauðárkróki æsispennandi og réðust úrslitin ekki í þeim leik fyrr en á síðustu sekúndum leiksins. Sú varð raunin einnig í kvöld. Þórsarar virtust vera með sigurinn í höndunum, en ótrúlegur karakter í liði Tindastóls gerði það að verkum að gestirnir fóru með eins stigs sigur af hólmi, 93:94. 

Gestirnir byrjuðu leikinn af krafti og náðu fljótt 9 stiga forystu, 2:11. Hrafn Kristjánsson var fljótur og tók leikhlé til þess að stöðva þennan góða sprett gestanna. Eftir leikhléið komu heimamenn aðeins frískari til leiks og náðu að laga bæði sóknarleikinn sinn sem og varnarleikinn. Með góðum lokakafla náðu heimamenn að minnka forystu gestanna niður í fjögur stig, og þar með leiddu gestirnir eftir fyrsta leikhluta 23:27. 

Heimamenn byrjuðu annan leikhluta af krafti. Hægt og bítandi náðu heimamenn stjórn á leiknum og um miðjan fjórðungin náðu heimamenn í fyrsta skipti forystu í stöðunni 37:36. Gestirnir virtust ráða illa við Cedric Isom og Þórsarar héldu forystunni til loka fjórðungsins og leiddu því í hálfleik með fimm stigum, 51:46. 

Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn af þvílíkum krafti, náðu að keyra upp hraðann, gestirnir réðu einfaldlega ekki við hraðan á heimamönnum sem náðu fljótt 12 stiga forystu og Kristinn Friðriksson þjálfari Tindastóls var fljótur að taka leikhlé. Eftir leikhlé Tindastóls hélst munurinn á bilinu 10-15 stig. Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs tók á það ráð að hvíla flesta lykilmenn liðsins, og leyfði öðrum leikmönnum að spreyta sig. Þórsarar leiddu eftir þriðja leikhluta með 12 stiga mun, 77:65 og fátt virtist getakomið í veg fyrir öruggan sigur heimamanna. 

Leikmenn Tindastóls neituðu að gefast upp og byrjuðu fjórða leikhluta af krafti, og skoruðu fimm fyrstu stig fjórðungsins. Smám saman náðu gestirnir að minnka forskot heimamanna sem virtust heldur kærulausir. Gestirnir komust síðan yfir í leiknum í stöðunni 87:89. Liðin skiptust á forustu undir lok leiksins, en þegar u.þ.b. 20 sekúndur voru eftir af leiknum voru gestirnir með boltann. Svavar Birgisson fékk knöttinn og tók tveggja stiga skot sem rataði oní um leið og flautan gall, því 93:94 sigur gestanna staðreynd. 

Kristinn Friðriksson þjálfari Tindastóls var að vonum ánægður með sigur sinna manna
,,Sjálfssögðu er ég sáttur, við unnum þennan leik með einu stigi rétt eins og þeir unnu okkur á heimavelli okkar, og gerðum það á töluverðari dramatískari hátt eftir að hafa verið 15 stigum undir í þriðja leikhluta. Við sýndum ótrúlegan karakter að koma hingað í þetta litla hús, troðfullt af áhorfendum sem voru flestir á bandi heimamanna, fimmtán stigum undir og vinnum leikinn. Þetta var ótrúlega góður liðssigur í kvöld, alveg
æðislegur. Á fyrstu tveimur mínútum í öðrum leikhluta misstum við þá tólf stigum frammúr okkur. Þetta er búið að gerast í síðustu leikjum hjá okkur, og í síðustu tveimur leikjum höfum við ekki brugðist vel við, höfum einfaldlega brotnað saman, en það gerðist sem betur fer ekki í kvöld. Ég sagði við leikmenn mína þegar ein mínúta var eftir af leiknum að við myndum vinna leikinn með einu stigi og það gekk eftir”.   

Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs var frekar svekktur eftir leikinn ,, Mér fannst leikurinn spilast eins og við lögðum hann upp. Fyrir utan byrjunina fannst mér leikurinn spilast í 30 mínútur eins og við ætluðum að spila leikinn. Síðan hreinlega tökum við slælegar ákvarðanir á slæmum tímum í fjórða leikhluta. Svavar greinilega kominn í sitt gamla form og fór mjög illa með okkur. Veit ekki hvort þetta hafi verið kæruleysi, fólk tekur bara ákvarðanir á dramatískum augnablikum, þær ganga upp eða ekki og í kvöld gengu þær ekki upp. Á síðustu tveimur mínútunum náðum við að koma boltanum á alla þá menn og á þá staði sem við vildum, en við náðum ekki að klára sókninnar. Við erum ennþá að stefna að úrslitakeppninna, miða við úrslitin í kvöld hefði sigur í leiknum í  kvöld verið risavaxinn”. 

Bæði lið sýndu ágætis takta í leiknum, þó geta bæði lið spilað betri varnar og sóknarleik. Erfitt er að gera upp á milli leikmanna Þórs, en liðsheildin var nokkuð góð en voru jafnvel bara klaufar að hleypa gestunum aftur inn í leikinn eftir góðan þriðja leikhluta. Í liði gestanna var Svavar Birgisson mikilvægur, og þá sérstakalega í síðasta leikhlutanum, enda gerði hann lítið úr sigurvonum heimamanna. En liðsheild Tindastóls var samt sem áður virkilega sterk og gáfust þeir aldrei upp þó að útlitið hafi verið svart, og áttu jafnvel skilið að vinna leikinn. 

Gangur leiksins:
(0:2)-(2:11)-(4:11)-(6:15)-(10:17)-(12:21)-(15:25)-(20:25)-(23:27)-(25:27)-(28:29)-(30:34)-(35:34)-(37:36)-(42:36)-(44:40)-(47:42)-(49:44)-(51:46)-(53:48)-(56:51)-(61:51)-(63:53)-(65:56)-(69:56)-(71:59)-(73:60)-(75:60)-(77:65)-(77:68)-(77:75)-(81:75)-(84:77)-(84:82)-(87:82)-(87:86)-(87:89)-(90:89)-(93:90)-(93:94) 

Tölfræði leiksins 

Texti: Sölmundur Karl Pálsson – www.thorsport.is

Mynd: www.vf.is (Úr safni)

Fréttir
- Auglýsing -