Hamarsmenn stefndu að því allt tímabilið að komast í úrslitakeppnina en svo fór að lokum að Hvergerðingar máttu sætta sig við 9.-10. sæti deildarinnar og rétt misstu af úrslitakeppninni í Iceland Express deild karla. Karfan.is ræddi við Svavar Pál Pálsson sem hefur látið að sér kveða síðasta áratuginn í Hveragerði og hann er ekkert á förum þaðan.
Svavar sem gerði 9,2 stig, tók 6,9 fráköst og gaf 3,5 stoðsendingar að meðaltali í deildinni í vetur með Hamri var ekki sáttur við lokastöðu Hamars.
,,Nei ég er ekki sáttur, við vorum alltaf með það markmið að fara í úrslitakeppnina og við vorum í því sæti alveg fram á síðustu umferð. Þó svo við hefðum átt séns í síðustu umferðinni að halda því sæti voru leikir fyrr í deildinni sem við vorum búnir að klúðra. Það gerði það að verkum að sæti í úrslitakeppninni var ekki öruggt, það er bara svona,“ sagði Svavar en sagði sína menn staðráðna í því að gera betur á næstu leiktíð.
,,Fyrir utan kannski FSu vorum við með yngsta hópinn í deildinni, bara ég, Marvin og Viðar úr liðinu erum komnir í frí núna því restin af liðinu er að spila áfram í drengja- og unglingaflokki. Þar eru sprækir strákar og við erum í góðum málum með þá. Þessir leikmenn eru að stíga upp og spennandi að sjá hvernig þeir koma eftir sumarið, þeir hafa bætti sig mikið í vetur,“ sagði Svavar en hvernig er með hann sjálfan, áfram í Hveragerði?
,,Maður skiptir ekkert um ungmennafélag, ég verð áfram í Hamri. Það eru komin einhver 10 ár hérna hjá mér og maður vill vera áfram þar sem maður hefur það gott og skemmtir sér,“ sagði Svavar en hvernig líst honum á framhaldið, sjálfa úrslitakeppnina?
,,Deildin var með jafnara móti og ég man vart eftir viðlíka baráttu um að komast í úrslitakeppnina en deildin varð tvískiptari undir lokin en ég bjóst við. Hún skipti sér í tvennt en það var samt hægt að stela sigrum og það gerðum við meðal annarra. Eins og þetta spilaðis kom það mér á óvart að deildin skildi skipta sér svona því það voru engir leikir gefnir en þetta var skemmtilegt tímabil. Hvað okkur varðar þá stefndum við á 8. sætið og vorum á því svæði en síðustu leikirnir, sérstaklega á móti Breiðablik, reyndust okkur dýrkeyptir.“
Áður en við slepptum Svavari út í sumarið fengum við hann til þess deila með okkur hverjir hann teldu að gætu farið langt.
,,Mér finnst mjög gaman að sjá Tindastól í úrslitakeppninni en þeir hafa verið að spila mikið undir getu í vetur því þeir eru með breiðan og góðan hóp. Snæfell er með sterkan hóp og það er ekki þannig að maður hafi mesta trú á liðunum í efstu sætunum heldur en öðrum liðum því nú skiptir máli hvað alið nái að halda uppi stemmningunni. Annars veit ég að strákarnir í Hólminum eru sterkir og ef þeir eru allir heilir myndi ég veðja á þá.“
Hamar lauk keppni í 10. sæti deildarinnar þetta tímabilið og eru því komnir í sumarfrí. Liðið kom upp úr 1. deild fyrir þessa leiktíð og vann 7 deildarleiki og tapaði 15.



