Svartfjallaland er Smáþjóðameistari 2015 eftir öruggan 84-102 sigur á Íslendingum í Laugardalshöll í dag. Svartfellingar hnykkluðu vöðvana frá fyrstu mínútu, hreyfðu boltann vel, hreyfðu sig vel í vörninni og íslenska liðið átti í raun aldrei möguleika. Umtalsvert vantaði upp á ákefðina í íslenska hópnum, vissulega til staðar hjá Hlyni Bæringssyni en aðrir mættu herða skrúfurnar. Hlynur lauk leik með 19 stig og 5 fráköst en Milutin Dukanovic var stigahæstur Svartfellinga með 15 stig og 4 stoðsendingar.
Stigataflan sýndi fljótlega 9-20 fyrir gestina sem brenndu vart af skoti, voru 12-22 í þristum í fyrri hálfleik, þéttir í vörninni og íslenska liðið fékk 61 stig á sig í fyrri hálfleik! Varnarleikur íslenska liðsins var einfaldlega sundurtættur, ef það gafst ekki galopið þriggja stiga skot gátu Svartfellingar prjónað sig upp að körfunni og ljóst að það er umtalsverð vinna framundan hjá íslenska hópnum.
Síðari hálfleikur var nokkuð betri, varnarleikurinn lagaðist og fleiri virtust vilja bíta frá sér en skaðinn var skeður, það hafði því lítið að segja fyrir stigatöfluna að Ísland ynni þriðja leikhluta 18-15 því staðan eftir þrjá leikhluta var þá 59-76 gestina í vil. Jakob Örn Sigurðarson tók svo smá dembu í fjórða leikhluta og lauk leik með 17 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar en sigur Svartfellinga var aldrei í hættu, lokatölur 84-102 eins og áður greinir.
Fyrir leikinn í dag var vitað að við ramman reip yrði að draga og nokkrir af sterkustu leikmönnum Íslands yrðu ekki með eins og Jón Arnór, Hörður Axel, Pavel og Haukur Helgi. Engu að síður komu menn ekki klárir inn í leikinn og holan varð of djúp of snemma og gegn sterkum andstæðingi eins og Svartfjallalandi þarf að mæta klár frá fyrstu sekúndu.
Hlynur Bæringsson lauk leik með 19 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar og Jakob Örn Sigurðarson bætti við 17 stigum, 7 fráköstum og 4 stoðsendingum. Þá var Logi Gunnarsson einnig beittur með 14 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar og Martin Hermannsson bætti við 11 stigum.
Landsliðssumarið er því rokið af stað með silfurverðlaunum hjá íslenska liðinu á Smáþjóðaleikunum og það tekur ekki enda fyrr en á EuroBasket í september. Í millitíðinni þarf að herða róðurinn og andstæðingur eins og Svartfjallaland kjörinn í undirbúningi íslenska liðsins fyrir stóra sviðið. Hvernig Craig Pedersen lætur þetta meltast í iðrum hópsins og hvernig vinnst úr því verður forvitnilegt að sjá.
Mynd/ [email protected] – Smáþjóðameistarar Svartfjallalands 2015.



