Það var stórleikur á dagskrá í Ásgarði í kvöld þegar Stjörnumenn tóku á móti KR-ingum. Leikir þessara liða hafa oft reynst hörkuspennandi og biðu því margir eftir þessum slag með eftirvæntingu. Fyrir leikinn voru Vesturbæingar í 4. sæti með 14 stig en Stjarnan sæti neðar með 12 og Garðbæingar gátu því með sigri jafnað kollega sína úr Vesturbænum að stigum.
Í byrjun leiks mætti þó bara eitt lið til leiks og var engu líkara en að Stjörnumenn hefðu orðið veðurtepptir á Hellisheiði, á leiðinni á eigin heimavöll! KR-ingar léku á als oddi, pressuðu stíft og náðu fljótlega mjög góðu forskoti. Stjörnumenn voru gjörsamlega slegnir út af laginu og afrekuðu lítið fyrsta leikhlutann. Vesturbæingar voru komnir með 23 stiga forystu, 30-7, þegar tæpar tvær mínútur lifðu af fyrsta fjórðungi en heimamenn náðu aðeins að klóra í bakkann og leikhlutanum lauk í stöðunni 31-11 fyrir gestina, frábær byrjun hjá svart-hvítum.
Stjörnumenn mættu loksins til leiks í öðrum leikhluta og fóru að láta til sín taka. Skot heimamanna fóru að detta og vörnin gekk talsvert betur. KR-ingar virtust þó framan af hafa svör við aðgerðum Stjörnunnar og vörðu forystu sína ágætlega. Stjarnan náði þó nokkrum góðum körfum undir lokin og eftir magnaða flautukörfu Justin Shouse frá miðju var munurinn skyndilega orðinn níu stig og ljóst að allt gæti gerst, staðan í hálfleik 42-51, gestunum í vil.
Heimamenn hófu seinni hálfleik eins og þeir kláruðu þann fyrri en Marvin Valdimarsson skoraði þriggja stiga körfu auk vítis og munurinn kominn í fimm stig. Eftir nokkrar pattstöðu mínutur þar sem KR-ingar héldu 9 stiga forystu náðu heimamenn svo ágætum kafla og minnkuðu muninn í fjögur stig og komust grátlega nálægt því að minnka hann enn frekar. KR-ingar nýttu sér mistök Garðbæinga og náðu 7 stiga forskoti fyrir lokaleikhlutann, 66-73, og allt annar leikur en stefndi í upphaflega.
Orðatiltækið ,,Í upphafi skal endinn skoða” sannaðist svo um munar í lokafjórðungnum því um miðbik leikhlutans tóku Vesturbæingar aftur öll völd á vellinum og öll góða vinnan sem heimamenn höfðu unnið skyndilega fyrir bí. Eftir góða endurkomu Stjörnumanna röðuðu KR-ingar inn stigunum undir lokin og unnu að lokum þægilegan 76-95 sigur.
Hrafn Kristjánsson þjálfari KR var að vonum ánægður með frammistöðu sinna manna: “Við hófum leikinn eins og lagt var upp með, pressuðum þá stíft í vörninni, sérstaklega Justin og vildum þreyta hann snemma sem tókst ágætlega. Við horfðum síðan vel til þessarar sterku byrjunar undir lokin og sáum þá hvað við gátum gert betur. Síðan eigum við næst Fjölni í bikarnum og það verður eflaust hörkuleikur”.
Heilt yfir var sigur KR mjög sanngjarn, en þeir voru yfir alveg frá stöðunni 2-2 og þar til lokaflautan gall. Stjörnumenn náðu þó að koma vel til baka og með meiri heppni hefðu þeir ef til vill komist enn nær en byrjendamistök á borð við opin sniðskot og víti sem fóru forgörðum reyndust þeim afar dýrkeypt. Stigahæstur heimamanna var Justin Shouse með 19 stig og nýr leikmaður þeirra, Renato Lindmets skoraði 16 auk 10 frákasta og þriggja varinna skota. Stigahæstur Vesturbæinga var hins vegar Pavel Ermolinskij með 24 stig auk 12 frákasta og Marcus Walker setti 23.
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski – [email protected]
Umfjöllun: Elías Karl Guðmundsson