spot_img
HomeFréttirSvar við "jafnvægis truflun" Fals

Svar við “jafnvægis truflun” Fals

 Viðar Bjarnason íþróttafulltrúi þeirra Valsmanna þótti lítið koma til þeirra orða sem Falur Harðarson lét falla í viðtali við Karfan.is ef marka má þann póst sem Viðar sendi okkur hér nú í dag.  Viðar telur Fal vera að kasta steinum í glerhúsi og vísar dramatískum samlíkingum Fals til föðurhúsa.  Hægt er að lesa bréfið frá Viðari Bjarnasyni hér að neðan.   Hægt er að skoða þessi atvik hér.
 
Vegna atviks sem virðist trufla jafnvægi Fals Harðarsonar formanns körfuknattleiksdeildar Keflavíkur og kom upp í leik Vals og Keflavík, vill Körfuknattleiks Vals koma eftirfarandi á framfæri. Dómari leiksins sá og greindi atvikið umrædda, dæmdi óíþróttamannslega villu og leikmaður Vals fékk sína refsingu. Dramatískar samlíkingar Fals gera atvikið ekki alvarlegra, né brotið harðara. Því miður verða meiðsl í íþróttum og finnst Körfuknattleiksdeild Vals leiðinlegt að leikmaður Keflavíkur hafi meiðst í leik á velli Sr. Friðriks, en slíkt getur því miður gerst á bestu völlum og við sendum leikmanninum, Carmen Tyson Thomas, okkar bestu batakveðjur.
 
Það hefði farið Fal betur að ræða annað atvik í þessum sama leik, þegar leikmaður Keflavíkur sló leikmann Vals af tilefnislausu. Á það var hins vegar ekkert dæmt, ekkert flagg og ekki svo mikið flaut eða tíst frá dómara. Falur kýs að skauta framhjá þessu atviki leiksins. Körfuknattleiksdeild Vals vill gera orð Fals að sínum; „Það verður fróðlegt að sjá hvað dómaranefnd gerir við þessu atviki.“ Þá er átt við höggi Keflavíkurstúlkunnar. Því það blasir við að dómaranefndin mun ekki gera neitt í því atviki sem Falur lýsir frjálslega, því dómari leikins hefur þegar metið það atvik og kveðið upp sinn dóm. Hitt atvikið liggur hins vegar hjá ómetið af dómurum og dómaranefnd.
 
Körfuknattleiksdeild Vals.
Viðar Bjarnason Íþróttafulltrúi
 
 
Fréttir
- Auglýsing -