Tindastóll og Snæfell áttust við í 8 liða úrslitum lengjubikarsins í kvöld. Byrjunarlið Tindastóls var skipað þeim Lewis, Flake, Pétri, Dempsey og Viðari, fyrir Snæfell stigu á fjalirnar Sveinn, Nelson, Snjólfur, Stefán og Bracey.
Snæfell byrjaði fyrsta leikhlutann betur og leiddu 14-19 eftir hann. Í öðrum leikhluta var svipað uppá teningnum Snæfellingar skrefinu á undan og voru að hitta ágætlega fyrir utan á meðan ekkert virtist ganga upp hjá heimamönnum. Snæfell vinnur 2 leikhluta 18-24 og leiða í hálfleik 32-43. Eitthvað hefur Israel Martin þjálfari Tindastóls náð að stilla strákana í hálfleik því það kom allt annað lið á völlin í seinni hálfleik. Flake og Viðar hvíldu og inn komu þeir nafnar Helgi Viggósson og Helgi Margeirsson. Eftir 5 mínútur af 3 leikhluta voru heimamenn búnir að jafna leikinn 50-50 með mikilli baráttu og flottum varnarleik. Heimamenn búnir að gjörsnúa leiknum og staðan eftir leikhlutann 68-54 og sigruðu heimamenn leikhlutann 36-11.
Stólarnir héldu svo áfram að bæta í forustu sína í 4 leikhluta og unnu leikinn að endingu 94-67. Í liði gestanna var Pálmi stigahæstur með 18 stig og Bracey með 15 sem og W. Nelson.
Í liði heimamanna átti Pétur stórleik og skoraði kappinn 24 stig Helgi R 19 og Dempsey 16. Frábær liðssigur hjá Stólunum og er liðið komið sannfærandi áfram í 4 liða úrslit í Lengjubikarnum þar sem liðið mun etja kappi við Fjölnir á föstudaginn kl 18:30 í Ásgarði í Garðabæ.
Umfjöllun af heimasíðu Tindastóls
Mynd/ Pétur Rúnar gerði 24 stig fyrir Tindastól í kvöld



