spot_img
HomeFréttirSvakalegur sigur hjá Blikum!

Svakalegur sigur hjá Blikum!

 

Breiðablik hélt lífi í rimmunni við Val í kvöld í Smáranum með afar mikilvægum sigri, 75-72. Þar með er staðan orðin jöfn, 2-2, í umspili liðanna í 1. deild karla. Þrjá sigra þarf til þess að komast áfram. Stemmningin var frábær í Smáranum og umgjörðin til mikillar fyrirmyndar hjá Kópavogsliðinu. Oddaleik þarf nú til að knýja fram úrslit í baráttu liðanna og er alveg morgunljóst að leikurinn á sunnudaginn að Hlíðarenda verður svaðalegur! Maður lifandi!

 

 

Valsmenn byrjuðu leikinn vel og voru heitir fyrir utan þriggja stiga línuna. Blikar náðu þó fljótt vopnum sínum og tókst vel að loka teignum hjá sér í vörninni. Það er eitthvað sem hefir skort illilega í fyrstu tveimur viðureignum liðanna þegar Valsmenn fóru með sigur af hólmi. Það sést aukinheldur á skortöflunni því heimamenn náðu að halda gestunum undir 80 stigum í leiknum í fyrsta sinn í einvíginu. Valsmenn hafa t.d. alltaf náð að setja um 50 stig í fyrri hálfleik á Blika en til að vinna leiki í umspili þarf að segja lok, lok og læs í vörninni. 

 

Blikar náðu yfirhöndinni í 2. leikhluta en þær tíu mínútur hafa reynst Kópavogspiltum erfiðar í einvíginu til þessa. Baráttan skein úr andliti Blika meðan ákveðnir mikilvægir póstar hjá gestunum virtust ekki alveg tilbúnir í slaginn. Blikar leiddu í hálfleik, 44-39, og allt útlit fyrir hörku seinni hálfleik. 

 

Heimamenn mættu af fítonskrafti inn í 3. leikhluta og breyttu stöðunni úr, 44-39, í, 52-39. Sá munur hélst svo vel fram í síðasta leikhluta þegar Valsmenn náðu loksins góðri rispu. Þeir minnkuðu muninn í 2 stig og allt var á suðurpunkti á þeim iðjagræna í  Smáranum (reyndar komið parket fyrir margt löngu!). Blikar virtust fara í það að verja forystuna undir lokin og urðu ragir við að sækja á körfuna og Valsarar voru fljótir að ganga á lagið.

 

Þegar rúmar fimm mínútur lifðu leiks var staðan, 66-64, Blikum í vil, og allt stefndi í æsilegar lokamínútur sem varð vitaskuld raunin. Baráttan var rosaleg – enda mikið í húfi. Blikar náðu að halda sjó og ná muninum upp í fimm stig, 71-66. Illugi Valsari skoraði þá góða 2ja stiga körfu og breytti stöðunni í, 71-68. Báðum liðum tókst ekki vel upp í sóknaraðgerðum sínum fyrr en Urald K fór á vítalínuna eftir að brotið var á honum undir körfunni. Hann skoraði úr seinna skotinu, 71-69. Þegar um 16 sekúndur voru eftir var brotið á Tyrone Blika og hann fór á vítalínuna. Honum brást bogalistin í báðum skotum sínum og eygðu nú gestirnir möguleika á að koma leiknum í framlengingu – eða sigur með þristi – og höfðu til þess tæpar 16 sekúndur.

 

Benedikt, leikstjórnandi Vals, kom upp með boltann en með mikilli útsjónarsemi tókst Tyrone að stela af honum boltanum og komast í auðvelt sniðskot. Bang – staðan 73-69 og 6 sek. eftir. Valsmenn reyndu skot en náðu ekki að skora, brutu á Tyrone sem skoraðu úr báðum skotum sínum af línunni, 75-69. Benedikt náði svo að skora 3ja stiga körfu lengst utan af velli í blálokin og klóra í bakkann. Lokatölur 75-72 og fimmti leikur á milli liðanna staðreynd.

 

Blikar hljóta að fara mjög sáttir frá þessum leik. Þeir hafa náð að loka vörninni hjá sér og kveikt í báli baráttunnar hjá öllum leikmönnum liðsins. Vel gert!  

 

Hjá Valsmönnum áttu Austin og Benedikt ágætan leik. Hinsvegar voru mikilvægir leikmenn eins og Birgir, Urald og Illugi heldur daprir, einkum sóknarlega, og má telja afar líklegt að þeir leiki ekki tvo svona slaka leiki í röð. Það stefnir því allt í svakalegan leik á sunnudaginn!

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Gylfi Gröndal

Myndir / Torfi Magnússon

Fréttir
- Auglýsing -